Midpunkt hlýtur hæsta styrkinn frá lista- og menningarráði Kópavogs

Styrkhafar og listaogmenningarrad.
Styrkhafar og listaogmenningarrad.

Fjörutíu umsóknir bárust lista- og menningarráði Kópavogs í sjóð sem ráðið úthlutar úr árlega og hlutu þrettán umsækjendur styrk úr sjóðnum. Sjóðurinn hefur yfir að ráða rúmum fimmtíu milljónum króna og er markmið hans að stuðla að eflingu menningar- og listalífs í Kópavogi.

Hæsta styrk ráðsins, 4.000.000, hlaut Midpunkt, listamannarými við Hamraborg, sem starfrækt hefur verið með fjölbreyttri og metnaðarfullri sýninga- og viðburðadagskrá í rúmlega ár af þeim Ragnheiði Sigurðardóttur Bjarnarson og Snæbirni Brynjarssyni.
Ráðið styrkir einnig jazztónleikaverkefni Leifs Gunnarssonar Myschi fyrir börn og fjölskyldur um 1.500.000 kr. og gerð heimildamyndar Purks ehf. um aðstæður og baráttu afgansks flóttadrengs á Íslandi um 1.000.000 kr.

Aðrir sem fengu úthlutað voru eftirfarandi:

600.000 kr. styrkur
-Sólfinna fyrir Jazztónleikaröð Sunnu Gunnlaugsdóttur í Salnum.

500.000 kr. styrkir
- Birnir Jón Sigurðsson sem stendur fyrir sviðslistahátíðinni Safe-Fest.
- Hafsteinn Karlsson til að skrá sögu sumarhúsabyggðar í Suðurhlíðum Kópavogs.

400.000 kr. styrkur
- Sigurður Unnar Birgisson fyrir myndbandsgerð um grasrótarstarf í myndlist í Kópavogi.

340.000 kr. styrkir
- Kór Hjallakirkju til að flytja tónverkið Gloria eftir Michael John Trotta.
- Þórunn Vala Valdimarsdóttir fyrir barrokk tónleika ásamt fleirum í Hjallakirkju.

300.000 kr. styrkur
- Afsakið, listhópur sem Sísí Ingólfsdóttir, Íris Stefanía Skúladóttir og Guðrún Mist
Sigfúsdóttir skipa.
- Marteinn Sigurgeirsson til að fullvinna mynd um bræðurna frá Kópavogsbúinu.
- Stefán Helgi Stefánsson og Margrét Sesselja Magnúsdóttir fyrir tónleikaröð í Sunnuhlíð,
Boðaþingi og Kastalagerði.

100.000 kr. Styrkir
- Camerartica með hina árlegu jólatónleika Mozart við kertaljós.

Lista- og menningarráð styrkir einnig samkvæmt samþykktum frá síðasta ári,
Ljóðahópinn Gjábakka, Sögufélag Kópavogs, Samkór Kópavogs, Söngvini - kór aldraðra,
Karlakór Kópavogs, Kvennakór Kópavogs og Ritlistarhóp Kópavogs.

Sjóður lista- og menningarráðs styrkir einnig fjölmargar hátíðir í Kópavogi;
Barnamenningarhátíð, Vetrarhátíð, Ljóðstaf Jóns úr Vör, 17. júní og Aðventuhátíð og
styður auk þess við reglubundna viðburði sem Menningarhúsin í Kópavogi skipuleggja á
borð við Menningu á miðvikudögum og Fjölskyldustundir á laugardögum. Þá stendur
ráðið árlega fyrir vali á bæjarlistamanni Kópavogs með framlagi að upphæð 1,5
milljónum króna.