Mikil ánægja með dagforeldra

Hjá dagforeldri í Kópavogi.
Hjá dagforeldri í Kópavogi.

Tæplega 93% foreldra í Kópavogi er mjög ánægður eða ánægður með samstarf við dagforeldra. Þetta kemur fram í árlegri viðhorfskönnun foreldra sem nýta þjónustu dagforeldra í Kópavogi og var lögð fyrir í febrúar 2015.

Af 198 foreldrum tóku 149 þátt í könnuninni, sem þýðir a svarhlutfall eru rúm 75%. Þegar foreldrar voru spurðir um hvað þeir væru sérstaklega ánægðir með þá kom í ljós að flestir nefna það að barninu líði vel hjá dagmömmunni. Góður matur og útivist er líka á meðal þess sem hrósað er.

Þegar spurt er um hvað betur mætti fara þá nefna flestir að upplýsingaflæði mætti vera betra en einnig er nefnt að útivist mætti vera meiri og of mikið sé um lokanir.

Meðal annarra niðurstaða var að 93% foreldra finnst fjöldi barna hjá dagforeldrum hæfilegur. Tæplega 80% eru mjög ánægð eða ánægð með upplýsingar um dagskipulag og matseðil. Ríflega 96% finnst mjög vel eða vel tekið á móti börnum hjá dagforeldrum og yfir 95% seru ánægð með það hvernig börnin eru kvödd. Þá kom fram að 60% þeirra sem svöruðu sögðust myndu velja leikskóla frekar en dagforeldra frekar ef leikskóli stæði til boða. Samkvæmt könnuninni greiða langflestir á bilinu 48.000 til 55.000 fyrir gæslu hjá dagforeldri.

Þess má geta að lokum að einungis helmingur svarenda veit hvar leita má ráðgjafar og koma athugasemdum og ábendingum vegna dagforeldra á framfæri. Því má árétta að það er gert með því að hafa samband við daggæslufulltrúa Kópavogsbæjar, Maríu Kristjánsdóttur, sem er með netfangið maria.k@kopavogur.is.