Mikil ánægja með starf leikskóla í Kópavogi

Börnin rýna í náttúruna
Börnin rýna í náttúruna

Yfir 93% foreldra í Kópavogi telja að mjög vel eða vel sé staðið að aðlögun barns í leikskóla í bænum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýlegri könnun á viðhorfi foreldra til leikskóla Kópavogs. Könnunin var gerð á vegum leikskóladeildar Kópavogs og send öllum foreldrum. Svörun var um 56%.

Ef marka má niðurstöðurnar eru foreldrar mjög ánægðir með leikskóla bæjarins. Um 90% svarenda segja að mjög vel eða vel sé tekið á móti barninu þegar það kemur í leikskólann á morgnana og sömu sögu sé að segja þegar barnið er kvatt að loknum degi.

Yfir 91% telja samstarf við starfsmenn leikskólans mjög gott eða gott og um 92% finnst auðvelt eða nokkuð auðvelt að ná tali af leikskólastjóra eða deildarstjóra. Um 88% eru mjög ánægð eða ánægð með foreldrasamtöl og meirihluti foreldra er ánægður með störf foreldrafélaga við leikskólana.

Um 92% telja að sú kennsla og umönnun sem barnið fær samræmist mjög vel eða vel þeim væntingum sem foreldrar hafa til leikskólans svo og sú sérkennsla sem þau börn fá sem þess þurfa. Meirihluti foreldra hefur kynnt sér námskrá og starfsáætlun leikskólans.

Dagleg samskipti, skriflegar upplýsingar, foreldrasamtöl,  heimsókn eða dvöl foreldra í leikskólanum telja foreldrar hvað mikilvægast í samstarfi við leikskólann.

Um  80% eru mjög ánægð eða ánægð með upplýsingastreymið. Fram kemur þó að uppfæra þurfi  oftar vefsíður en þar sækja foreldrar sér upplýsingar um starfið.

Meirihluti foreldra telur að skipulagsdagar og sumarleyfislokun valdi þeim engum erfiðleikum. Um 87% foreldra eru ánægð með þann mat eða næringu sem boðið er upp á í leikskólunum.

Móðir svarar könnuninni í 74% tilfella en fleiri feður svöruðu nú en í fyrri könnunum.

Í könnuninni var foreldrum gefinn kostur á að tjá sig um ýmislegt í starfi leikskólanna með opnum spurningum og lýstu þar flestir ánægju sinni með starfið. Ýmsar góðar upplýsingar og athugasemdir komu sem munu nýtast til að gera leikskólana enn betri.