Mozart við kertaljós í Kópavogskirkju

Kammerhópurinn Camerarctica
Kammerhópurinn Camerarctica

Kammerhópurinn Camerarctica heldur sína árlegu kertaljósatónleika í kirkjum nú rétt fyrir jólin og verða tónleikarnir í Kópavogskirkju föstudagskvöldið 20. desember kl. 21.00. Hópurinn hefur leikið ljúfa tónlist eftir Mozart við kertaljós í tuttugu ár og þykir mörgum ómissandi að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin í rökkrinu. Tónleikarnir eru styrktir af lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar.

Hópinn skipa að þessu sinni þau Ármann Helgason, klarinettuleikari, Gunnhildur Daðadóttir og Rannveig Marta Sarc fiðluleikarar, Svava Bernharðsdóttir, víóluleikari og Sigurður Halldórsson, sellóleikari en gestur á tónleikunum er Ingibjörg Guðjónsdóttir söngkona og einnig koma fram tveir drengir úr Drengjakór Reykjavíkur þeir Tryggvi Pétur Ármannsson og Benedikt Gylfason.

Í ár verða leikin eftirfarandi verk eftir Wolfgang Amadeus Mozart: Divertimento kv.136 fyrir strengi, klarinettukvartett kv.378 og klarinettukvintettþáttur kv.516c, tvær aríur þ.e Laudate Dominum og Parto,Parto og að venju lýkur tónleikunum á því að Camerarctica leikur jólasálminn góða Í dag er glatt í döprum hjörtum, sem er úr Töfraflautunni eftir Mozart.

Tónleikaröðin er í eftirfarandi kirkjum: Í Hafnarfjarðarkirkju - fimmtudagsdagskvöldið 19. desember, Kópavogskirkju -föstudagsdagskvöldið 20. desember, Garðakirkju - laugardagskvöldið 21. desember og loks í Dómkirkjunni í Reykjavík - sunnudagskvöldið 22. desember.

Tónleikarnir eru klukkustundarlangir og hefjast allir klukkan 21.00.

Aðgangseyrir er kr. 2500, og kr. 1500 fyrir nemendur og eldri borgara. Frítt er inn fyrir börn.  Miðasala við innganginn.