Níu heiðruð fyrir starf í 25 ár hjá bænum

Starfsmennirnir heiðraðir
Starfsmennirnir heiðraðir

Níu úr starfsliði Kópavogsbæjar áttu 25 ára starfsaldursafmæli á síðasta ári og voru af því tilefni heiðruð við hátíðlega athöfn í bæjarstjórnarsal Kópavogsbæjar. Bæjarstjóri, Ármann Kr. Ólafsson, flutti ávarp og þakkaði þeim farsæl störf hjá bænum. Þá afhenti bæjarstjóri  þeim úr með áletruðum upphafsstöfum.

Starfsmennirnir níu hófu öll störf árið 1989 og rifjaði Ármann af því tilefni upp það sem efst var á baugi í Kópavogi um þær mundir. Kópavogur hefur meira en tvöfaldast síðan þá var og umfang starfsemi bæjarins vaxið í takt við íbúafjölgun.  

„Þrátt fyrir þessar miklu breytingar á starfsumhverfinu hefur það ekki breyst að einn mikilvægasti þáttur í starfi starfsfólks Kópavogsbæjar eru samskipti við bæjarbúa, við vinnum fyrir þá og þið sem hér eruð heiðruð í dag hafið lagt ykkar lóð á vogarskálarnar til þess að auka virðingu bæjarins með því að leggja ykkur fram í því starfi,“ sagði Ármann.

Starfsmennirnir eru Jónína Einarsdóttir, þjónustuveri Kópavogsbæjar, Gunnþór Hermannsson, flokkstjóri garðyrkju, Jón Júlíusson, deildarstjóri íþróttadeildar, Kristín Sigríður Jónsdóttir, skólastjóri Kvöldskóla Kópavogs, Steinunn Pétursdóttir , stuðningsfulltrúi Snælandsskóla, Svala Hafsteinsdóttir,  leikskólakennari leikskólanum Efstahjalla, Fjóla Þorvaldsdóttir, leikskólasérkennari leikskólanum Álfaheiði, Svavar Sverrisson, yfirflokkstjóri garðyrkju og Jakobína Ólafsdóttir, bókavörður hjá Bókasafni Kópavogs.