Notkun spjaldtölva í námi rannsökuð

Spjaldtölvur voru innleiddar í kennslu í Kópavogi 2015.
Spjaldtölvur voru innleiddar í kennslu í Kópavogi 2015.

Rannsóknarskýrsla um innleiðingu spjaldtölva í grunnskólum Kópavogsbæjar á árunum 2015 – 2020 er komin út. Skýrslan er unnin af Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands á árunum 2021 - 2022. Meginmarkmiðið með rannsókninni var að kanna hverju innleiðingin hefur skilað og hvaða lærdóm megi draga af henni. Gögnum var safnað meðal nemenda, foreldra, kennara, skólastjórnenda og annars fagfólks.

Í matsskýrslunni er farið yfir helstu niðurstöður og jafnframt skoðað hvaða áskoranir menn stóðu frammi fyrir. Jafnframt leggja rannsakendur mat á verkefnið í heild miðað við upphafleg markmið og benda á leiðir til úrbóta.

Sem dæmi um niðurstöður má nefna að nemendur eru yfirleitt ánægðir og áhugasamir um nám með spjaldtölvum og spjaldtölvunotkun eykur persónulega færni og lykilhæfni af ýmsum toga. Flestir kennarar telja spjaldtölvur koma að miklu gagni við einstaklingsmiðað nám og með innleiðingu þeirra hefur stafrænum verkfærum til náms fjölgað. Nemendur eru sjálfstæðari við nám og val nemenda hefur aukist á námsefni og við upplýsingaleit. Jafnframt hefur sköpun eflst í flestum námsgreinum með tilkomu spjaldtölvanna.

Hvað varðar kennara og kennsluhætti þá er töluverð ánægja með áhrif spjaldtölva á skipulag kennslu og gerð kennsluefnis. Rúmur helmingur kennara telur færni sína í upplýsinga- og samskiptatækni í meðallagi og um þriðjungur telur hana mikla. Stuðningur við kennara er til staðar en fram kemur að hann nýtist best ef hann er til staðar í skólanum.

Fjölbreytni í kennsluháttum hefur aukist, en kennarar eru þó mjög mislangt komnir varðandi nýtingu spjaldtölva í kennslu. Spjaldtölvan er yfirleitt nýtt við sjálfstæða vinnu nemenda, í samvinnu og þegar nemendur vinna skapandi verkefni. Skil verkefna eru fjölbreyttari en áður sem kemur til vegna fjölbreyttra möguleika spjaldtölvunnar. Notkunin er meiri í bóklegum greinum en í þeim verklegu og tekur mikill meirihluti nemenda spjaldtölvuna með sér heim.

Meirihluti foreldra segist ræða spjaldtölvunotkun við börn sín, en tæpur þriðjungur foreldra setur reglur um notkunina heima en þar nýtist hún í óformlegu námi. Óformlegt nám tengist áhugamálum, leik og skemmtun en einnig til samskipta við ættingja og vini. Foreldrar vilja vera betur upplýstir um skipulag frá skólanum og fram kemur áhugi bæði foreldra og kennara á fræðslu í stafrænni borgaravitund.

Helstu áskoranir snúa að því að setja mörk um notkunina, fækka tæknilegum hindrunum og skoða aðra möguleika á verkfærum fyrir nemendur þar sem þeir geta nýtt lyklaborð og penna við stafræna námið.

Ábendingar um áframhaldandi þróun starfsemi eru settar fram í skýrslunni í ljósi niðurstaðna og í tengslum við núverandi menntastefnu Kópavogsbæjar og stefnumótun á erlendum vettvangi. Ábendingarnar varða helst stefnu og sýn, kennsluhætti, stafræna borgaravitund og stafræna innviði.

Rannsóknarskýrsla um innleiðingu spjaldtölva