- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Kópavogsbær og Sjómannadagsráð Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, eigandi Hrafnistuheimilanna, hafa samið um rekstur og starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar í Boðaþingi, sem m.a. felur í sér að tekin verða í notkun þrjátíu ný dagvistarúrræði fyrir aldraða í Kópavogi.
Samningurinn léttir verulega á brýnni þörf fyrir dagvist í bæjarfélaginu, en gera má ráð fyrir að allt að níutíu manns geti nýtt sér þjónustuna.
Bæjarstjóri Kópavogs, Guðrún Pálsdóttir, og Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannadagsráðs, undirrituðu samkomulagið í Boðaþingi í dag.
Samkomulagið felur í sér mikla breytingu á þjónustu við aldraða í bænum en fyrir hafa Kópavogsbúar dagvistarúrræði í Sunnuhlíð. Dagvistun er eitt af þeim úrræðum sem boðið er upp á til að fólk geti búið sem lengst heima. Með slíku úrræði fá aldraðir fjölbreytta þjónustu í formi heilsueflingar og afþreyingar. Það dregur jafnframt úr einangrun og örvar fólk bæði félagslega og andlega.
Hrafnista mun annast rekstur dagvistarrýmanna á annarri hæð þjónustumiðstöðvarinnar í Boðaþingi en Kópavogsbær mun eftir sem áður greiða fastan kostnað af mannvirkinu, viðhald, hita og rafmagn. Þá tekur bærinn þátt í stofnkostnaði við dagvistunina til jafns á við hjúkrunarheimilið. Í samkomulaginu er einnig kveðið á um að DAS reki áfram, í eitt ár til viðbótar, sundlaug fyrir eldri íbúa Kópavogsbæjar í Boðaþingi en laugin var vígð í maí á síðasta ári.
Áætlað er að dagvistin taki formlega til starfa á hlaupaársdaginn 29. febrúar næstkomandi, og er þeim bæjarbúum í Kópavogi sem hafa áhuga á að nýta sér þjónustuna bent á að hafa samband í síma 693 9506.
Hrafnista rekur nú þegar 44 hjúkrunarrými í Boðaþingi og Kópavogsbær rekur þar þjónustumiðstöð sem m.a. hýsir félagsstarf eldri borgara í bænum og aðra fjölbreytta þjónustu fyrir þann aldurshóp.