Ný listahátíð í Kópavogi í sumar

Gerðarsafn
Gerðarsafn

Kópavogsbær tekur þátt í nýrri alþjóðlegri listahátíð, Cycle Music and Art Festival, sem fram fer í Kópavogi dagana 13. til 16. ágúst. Hátíðin fer aðallega fram í Hamraborg, Salnum og Gerðarsafni auk þess sem óhefðbundnar staðsetningar og almenningsrými verða notuð fyrir tónleika, uppákomur og innsetningar. Áhersla verður lögð á samtímatónlist í samvinnu við önnur listform, svo sem gjörningalist, myndlist, hljóðlist og arkitektúr.

Á hátíðinni koma fram listamenn sem eru brautryðjendur á sínu sviði. Helst má nefna verðlaunahafa Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2014, tónskáldið Simon Steen-Andersen, hljóðlistakonuna Christinu Kubisch, gjörningalistakonuna og tónskáldið Jennifer Walshe, Sigurð Guðjónsson myndlistarmann og Gjörningaklúbbinn.

Að hátíðinni standa Guðný Guðmundsdóttir, Tinna Þorsteinsdóttir og Fjóla Dögg Sverrisdóttir ásamt  Listhúsi Kópavogsbæjar, lista- og menningarráði Kópavogs, menningarskrifstofunni Curated Place í Englandi, Listaháskóla Íslands og Festival of Failure. Hátíðin er styrkt af Creative Europe - Kvikmynda og menningaráætlun ESB, Kópavogsbæ, Ernst von Siemens Music Foundation og Tónlistarsjóði menntamálaráðuneytisins.

Nánari upplýsingar um dagskrána má sjá á vef og samfélagsmiðlum hátíðarinnar. Tímasetningar og nánari dagskrá verður sent út er nær dregur hátíðinni.

 

Heimasíða: www.cycle.is

Facebook: https://www.facebook.com/cyclemusicandartfestival

Twitter: https://twitter.com/cycle_festival