Ný menningarstefna í Kópavogsbæ

Menningarhúsin í Kópavogi.
Menningarhúsin í Kópavogi.

Ný menningarstefna Kópavogsbæjar var samþykkt einróma á fundi bæjarstjórnar þriðjudaginn 12. maí. Stefnan nær til alls lista- og menningarstarfs á vegum bæjarins og þar með til menningarhúsanna: Salarins, Gerðarsafns, Bókasafns Kópavogs, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Héraðsskjalasafns Kópavogs og Tónlistarsafns Íslands. Stefnan var unnin í víðtæku samráði við flesta sem hafa með einum eða öðrum hætti komið að lista- og menningarstarfi í bænum undanfarin ár. 

Með stefnunni er verið að skerpa sýn og hlutverk menningarstarfs í bænum, stuðla að markvissari ákvörðunum og betri nýtingu fjármagns. 

Í stefnunni segir meðal annars að tilgangur menningarstarfs sé að auka lífsgæði bæjarbúa, styrkja bæjarbrag og laða að nýja íbúa, en einnig innlenda sem erlenda gesti.

Í henni er lögð áhersla á nýta enn betur tækifærin sem felast í nálægð ólíkra menningarhúsa í Kópavogi, aukinn sýnileika, listir í almenningsrýmum,  og markvissari menningarfræðslu. Markmiðin eru ekki bara vel skilgreind heldur einnig leiðirnar að þeim.

Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs: „Það er vel við hæfi að samþykkja nýja menningarstefnu í 60 ára afmælisviku Kópavogsbæjar. Með því erum við að hnykkja á því, á þessum tímamótum, að við viljum að í Kópavogi sé áfram frjór jarðvegur sem stuðli að listsköpun sem hægt verði að miðla áfram með sýningum, viðburðum, tækninýjungum og fræðslu, allan ársins hring.“

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri: „Það var mikil framsýni að reisa tónlistarhús, listasafn, bókasafn og náttúrufræðistofu á einu og sama svæðinu í Kópavogi. Nálægð þessara húsa býr til óteljandi tækifæri sem við eigum að nýta okkur enn betur eins og fram kemur í menningarstefnunni. Verði markmiðum hennar náð munu menningarhúsin verða enn sterkari kjarni á miðju höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt verður að njóta ólíkra listgreinar og fræða á einum og sama staðnum.“

Menningarhátíð í Kópavogi verður haldinn með fjölbreyttri dagskrá í menningarhúsum bæjarins nú á laugardaginn 16. maí. Á sama verða kynntar skemmtilegar breytingar á svæðinu umhverfis húsin. Myndlistafélag Kópavogs tekur einnig þátt í menningardeginum með samsýningum og opnum vinnustofum úti um allan bæ. Ókeypis er inn á alla viðburði. Nánari upplýsingar um dagskrá má finna á kopavogur.is.