Nýr formaður bæjarráðs tekinn við

Theódóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs tekur við lyklavöldum af Rannveigu Ásgeirsdóttur frá…
Theódóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs tekur við lyklavöldum af Rannveigu Ásgeirsdóttur fráfarandi formanni bæjarráðs.

Theodóra S. Þorsteinsdóttir tók við lyklavöldum að skrifstofu formanns bæjarráðs í Kópavogi í dag.  Það var fráfarandi formaður bæjarráðs, Rannveig Ásgeirsdóttir sem afhenti Theodóru lyklana. Þá fundaði nýtt bæjarráð í fyrsta sinn og stýrði Theodóra því sínum fyrsta fundi sem formaður bæjarráðs.

Í bæjarráði Kópavogs sitja auk Theodóru, sem er í Bjartri framtíð, Karen E. Halldórsdóttir og Hjördís Ýr Johnson, Sjálfstæðisflokki,  Ólafur Þór Gunnarsson Vinstri grænum og Pétur Hrafn Sigurðsson Samfylkingu. Þá situr bæjarstjóri, Ármann Kr. Ólafsson, fundina án atkvæðisréttar, og Birkir Jón Jónsson, Framsóknarflokki, er áheyrnarfulltrúi.

Þess má geta að Theodóra er þriðja konan í röð sem gegnir formennsku í bæjarráði í Kópavogi, hún tekur við af Rannveigu sem tók við af Guðríði Arnardóttur. Þá eru konur í meirihluta bæjarráðs Kópavogs í fyrsta sinn.

Bæjarráð og bæjarstjóri fara með framkvæmda- og fjármálastjórn Kópavogsbæjar.