Nýr leikskóli í Austurkór vígður

Aðalsteinn Jónsson, Manuela Þrá, Ármann Kr. Ólafsson, Hlynur Breki og Ómar Stefánsson.
Aðalsteinn Jónsson, Manuela Þrá, Ármann Kr. Ólafsson, Hlynur Breki og Ómar Stefánsson.

Leikskólinn Austurkór var vígður með formlegum hætti fyrr í dag þar sem bæjarstjóri, varaformaður bæjarráðs og formaður leikskólanefndar klipptu á borða með hjálp leikskólabarna. Skólinn var blessaður og foreldrum og börnum síðan boðið að skoða húsnæðið. Leikskólinn er um 870 fermetrar að stærð og ráðgert er að þar verði sex deildir og 120 leikskólabörn. Leikskólinn er í Austurkór 1 og tekur á móti leikskólabörnum í nærliggjandi hverfum. 

Guðný Anna Þóreyjardóttir er leikskólastjóri. Fyrstu börnin byrja í leikskólanum um miðjan febrúar. 

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri færði skólanum fyrir hönd bæjarstjórnar spjaldtölvu að gjöf en í stefnu bæjarins í upplýsingatækni leikskóla er lögð áhersla á gott aðgengi leikskólabarna að nútímatækni. Aðalsteinn Jónsson, formaður leikskólanefndar, færði skólanum heimskort fyrir hönd leikskólanefndar og menntasviðs.

Fyrsta skóflustungan að skólanum var tekin í desember 2012 og sá verktakafyrirtækið Eykt um hönnun og byggingu leikskólans. Kostnaður nam um 307 milljónum króna. 

Austurkór er annar leikskólinn frá hruni 2008 sem byggður er á landinu. Hinn fyrri var byggður nýverið í Garðabæ. Í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir þetta ár er gert ráð fyrir fjármagni til að hanna nýjan leikskóla í Gulaþingi.

Með Austurkór er 21 leikskóli í Kópavogi en auk þess eru í bænum tveir einkareknir leikskólar. Yfir 2.000 börn eru í leikskólum í Kópavogi.