Frá vinstri: Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri, Svava Pétursdóttir Háskóla Íslands, Sæmundur Helgason ritstjórn Vitundar, Bergþóra Þórhallsdóttir verkefnastjórn Vitundar, Sigurður Haukur Gíslason ritstjórn Vitundar, Arna Guðríður Sigurðardóttir Miðstöð menntunar, Aron Ingi Guðmundsson ritstjórn Vitundar, Ragnheiður Hermannsdóttir fv.deildarstjóri grunnskóladeildar Kópavogs, Anna Birna Snæbjörsnsdóttir sviðsstjóri menntasviðs.
Námsefnisvefurinn Vitundin – Stafræn tilvera var tekinn formlega í notkun í dag. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs opnaði vefinn við hátíðlega viðhöfn í Vatnendaskóla í dag þar sem komu saman aðstandendur vefsins.
Vefurinn er afrakstur verkefnisins Vitundin – Stafræn tilvera en meginmarkmið þess er að þróa heildstæða námskrá í stafrænni borgaravitund, efla færni og þekkingu nemenda til ábyrgrar þátttöku í stafrænu samfélagi og gera námsefni og kennsluleiðbeiningar aðgengilegar fyrir íslenskt skóla- og frístundastarf.
„Þetta er stórt skref fyrir íslenskt menntakerfi. Vitundin er ekki bara verkefni – hún er liður í að breyta menningu sem er ætlað að styrkja börn og ungmenni til að verða ábyrgir, gagnrýnir og virkir þátttakendur í stafrænu samfélagi framtíðarinnar,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.
Verkefnið, sem hlaut styrk úr Sprotasjóði, Lýðheilsusjóði og úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði Mennta- og barnamálaráðuneytisins, var unnið að frumkvæði Kópavogsbæjar og í nánu samstarfi við Langholtsskóla og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Auk þess var mikilvæg ráðgjöf veitt frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Vefurinn byggir í grunninn á alþjóðlegu efni frá Common Sense Education og hefur verið þýtt, staðfært og aðlagað að íslenskum aðstæðum meðal annars með endurgerð og textun myndbanda sem er hluti af námsefninu.
„Við viljum að börn og ungmenni læri ekki bara að nota tæknina, heldur skilji hana, spyrji gagnrýninna spurninga og beri ábyrgð á eigin nethegðun,“ segir Bergþóra Þórhallsdóttir, verkefnastjóri hjá menntasviði Kópavogsbæjar og einn helsti hvatamaður verkefnisins.
Skoða vefinn: vitundin.is
Nánar:
- Á vefnum er að finna námsefni sem inniheldur: Kennsluleiðbeiningar, verkefni, glærupakka, foreldraefni og námsmarkmið fyrir alla árganga.
- Á þeim tveimur árum sem unnið hefur verið að þróun námsefnisins voru haldnar vinnustofur fyrir kennara og námslotur prófaðar í samstarfsskólunum.
- Niðurstöður sýna að bæði kennarar og nemendur átta sig á gildi þess í skólastarfi enda var eftirspurnin upphaflega frá grasrótinni.
- Stafræn borgaravitund verður hluti af upplýsingatækni í endurskoðaðri námsskrá grunnskóla
- Vefurinn verður áfram í þróun og er ætlunin að bæta við námsverkefnum eftir því sem þau verða tilbúin til útgáfu.