Nýr þjónustukjarni fyrir fatlað fólk

Þjónustukjarninn við Kópavogsbraut
Þjónustukjarninn við Kópavogsbraut

Nýr þjónustukjarni fyrir fatlað fólk í Kópavogi var tekinn í notkun nú um mánaðamótin. Húsnæðið er á Kópavogsbraut og eru í því fjórar íbúðir ásamt aðstöðu fyrir starfsmenn sem veita íbúum þjónustu allan sólarhringinn. Íbúarnir flytja inn á næstu dögum.

Þegar Kópavogsbær tók við málefnum fatlaðs fólks af ríkinu í ársbyrjun 2011 lá fyrir biðlisti 20 einstaklinga eftir húsnæði með sértækri þjónustu. Bæjarfélagið hóf strax vinnu við að tryggja þessu fólki nauðsynlegar úrbætur.  

Nýr þjónustukjarni var tekinn í notkun árið 2011 og til viðbótar þeim sem tekinn var í notkun nú í byrjun mánaðar er hafinn undirbúningur að byggingu tíu nýrra íbúða. Auk þess er fyrirhugað að fjölga félagslegum leiguíbúðum til handa fötluðu fólki. 

Húsnæðið að Kópavogsbraut var að hluta til í eigu bæjarins en keypt að öllu leyti seinni hluta síðasta árs. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því að breyta húsnæðinu og var verkið boðið út á vormánuðum. Húsið verður málað að utan á næsta ári og þá lýkur einnig frágangi á lóð.