Nýtt blað um fyrirtæki í Kópavogi

Fyrsta tölublaði Miðjunnar, blaði Markaðsstofu Kópavogs, hefur verið dreift á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrsta tölublaði nýs blaðs er sjónum beint að fyrirtækjum sem framleiða eða selja vörur og þjónustu sem tengjast framkvæmdum á heimilinu. Mörg þessara fyrirtækja eru rótgróin og hafa verið með rekstur í Kópavogi um árabil á meðan önnur eru tiltölulega ný. Miðjan verður gefin út fjórum sinnum á ári.

Áshildur Bragadóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs segir að góð vaxtarskilyrði hafi skapast fyrir kraftmikið atvinnulífi í Kópavogi . „Um þessar mundir er mikil uppbygging í atvinnulífinu, sem er  engin tilviljun. Kópavogur er á miðju höfuðborgarsvæðisins og aðgengi að atvinnusvæðum bæjarins er gríðarlega gott. Við finnum að höfuðborgarbúar hafa tekið uppbyggingunni á Nýbýlavegi fagnandi  og við sjáum aukna eftirspurn fyrirtækja eftir húsnæði í kringum Smáratorg og Lindir, Ögurhvarf og Smiðjuhverfi. Mörg atvinnusvæði í bænum eru í þróun sem mun styrkja svæðin enn frekar og má þar nefna Kársnesið, Smiðjuhverfið, Glaðheimasvæðið sem er sunnan Bæjarlindar og svæðið aftan Smáralindar þar sem fyrir eru þéttur kjarni fyrirtækja.“

Með útgáfu blaðsins vill Markaðsstofa Kópavogs vekja athygli á fyrirtækjum í Kópavogi og blása til sóknar í atvinnulífinu í bænum. Markaðsstofa Kópavogs hefur það hlutverk að efla atvinnuuppbyggingu og þróun í bænum og með Markaðsstofunni er orðinn til öflugur samstarfs- og samráðsvettvangur fyrir fyrirtæki og aðra aðila til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum, styrkja ímynd svæðisins og auka eftirspurn eftir hvers konar þjónustu.

Markaðsstofa Kópavogs er sjálfseignarstofnun, styrkt af Kópavogsbæ og fyrirtækjum í bænum.