Nýtt fjölbýlishús rís við Kópavogstún

Skólfustunga að nýju fjölbýlishúsi við Kópavogstún tíu til tólf
Skólfustunga að nýju fjölbýlishúsi við Kópavogstún tíu til tólf

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri tók í vikunni fyrstu skóflustunguna að byggingu nýs 28 íbúða fjölbýlishúss við Kópavogstún tíu til tólf. Byggingarfélagið Mót X fékk lóðinni úthlutað fyrr á árinu og er stefnt að því að húsið verði risið í árslok 2014. Íbúðirnar verða seldar á almennum markaði.

Á Kópavogstúni er stutt í ýmsa afþreyingu og þjónustu, en þar skammt frá eru íbúðir fyrir eldri borgara, Sunnuhlíð, og til stendur að bæta þar við þjónusturými. Stutt er í Sundlaug Kópavogs og á menningarholtið, þar sem eru Gerðarsafn, Salurinn og Bókasafn Kópavogs.

Kópavogstún er auk þess fjölsótt útivistarsvæði, þar eru göngu- og hjólabrautir, og verið er að vinna að því að endurbyggja gamla Hressingarhælið og gamla Kópavogsbæinn, og koma þar á líflegri starfsemi.

Síðustu lóðunum á Kópavogstúni hefur nú verið úthlutað en þær voru mjög eftirsóttar. Eftirspurn eftir lóðum í Kópavogi hefur aukist jafnt og þétt að undanförn og er gert ráð fyrir því að næsta úthlutun verði í vestanverðri Vatnsendahlíð, svokallaðri musterishæð, innan skamms.

Með Ármanni á meðfylgjandi mynd eru m.a. Vignir Steinþór Halldórsson og Svanur Karl Grjetarson byggingameistarar og forsvarsmenn Mót X. Aðrir þeir sem koma að verkinu fylgjast með.