Nýtt húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs

Össur Geirsson skólastjóri Skólahljómveitar Kópavogs tekur við lyklum nýs húsnæðis úr hendi Ármanns…
Össur Geirsson skólastjóri Skólahljómveitar Kópavogs tekur við lyklum nýs húsnæðis úr hendi Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra Kópavogs.

Ný kennsluaðstaða Skólahljómsveitar Kópavogs var vígð við hátíðlega athöfn föstudaginn 7.febrúar.

Nýtt húsnæði hljómsveitarinnar er nýbyggð álma við Álfhólsskóla Digranesi,með kennslustofum, geymslurýmum og skrifstofu skólans ásamt æfingasal fyrir hljómsveitarstarfið. Þetta er fyrsta sérhannaða húsnæði fyrir skólahljómsveit sem tekið er í notkun á landinu.

„Með húsnæðinu rætist langþráður draumur um varanlegt og sérhannað húsnæði fyrir hljómsveitina sem hefur starfað í Kópavogi í rúmlega hálfa öld, vonandi verður byggingin lyftistöng fyrir það góða starf sem Skólahljómsveit Kópavogs er þekkt fyrir,“ sagði Össur Geirsson skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs við tækifærið.

Vandað hefur verið til verka við hina nýju byggingu og leitast við að hafa þar eins góða hljóðvist og mögulegt er fyrir tónlistarkennslu.

Skólahljómsveit Kópavogs hefur verið starfrækt frá árinu 1967 og því ríflega hálfrar aldar gömul. Fjöldi nemenda frá upphafi skiptir upphafi þúsundum og margir tónlistarmenn stigið sín fyrstu skref í hljómsveitinni. Í dag eru um 200 nemendur í hljómsveitinni og 16 kennarar, flestir í hlutastarfi.

„Skólahljómsveit Kópavogs hefur verið órjúfanlegur hluti menningarlífs í Kópavogi í áratugi og hljómsveitin mikilvægur hluti í tónlistaruppeldi barna í bænum. Svo ég vitni í verðlaunahöfundinn Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur þá er Skólahjómsveit Kópavogs besta uppeldisstofnun sem völ er á og allir foreldrar ættu að senda börnin sín í hana. Þessi orð segja allt um hljómsveitina og það ómetanlega starf sem starfsfólk undir stjórn Össurar og forvera hans hafa unnið. Við í bæjarstjórn Kópavogs erum afar stolt af því að búa hljómsveitinni svona góða umgjörð,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs við vígsluna.

Við athöfnina tók hljómsveit kennara lagið og fengu þau bæjarstjóra Kópavogs til liðs við sig í Bítlalaginu Hey Jude og Áslaugu Eiríksdóttur formann foreldrafélags Skólahljómsveitarinnar sem flutti ávarp fyrir hönd foreldra nemenda í Skólahljómsveit Kópavogs.