Okkar Kópavogur: Hugmyndasöfnun lokið

Leiktæki á Rútstúni sem íbúar völdu í kosningum 2018.
Leiktæki á Rútstúni sem íbúar völdu í kosningum 2018.

Hugmyndasöfnun í Okkar Kópavogi er lokið. Alls söfnuðust tæplega 300 hugmyndir sem staðsettar eru um allan Kópavog. Hugmyndasöfnun fór bæði fram í samráðsgátt og á íbúafundum sem haldnir voru á fimm stöðum í bænum.

Næstu skref í verkefninu eru að matshópur mun fara yfir innsendar hugmyndir og velja þær sem fara í kosningu. Alls fara 100 hugmyndir í kosningu, 20 í hverjum bæjarhluta. Allt að sjö eru hugmyndir sem lagðar voru fram á íbúafundum en hinar hugmyndirnar koma úr innsendum tillögum.

Samtals 200 milljónum er úthlutað til framkvæmda verkefnanna og er upphæðinni skipt meðal annars eftir íbúafjölda í hverfum. Kosið verður í Okkar Kópavogi í febrúarbyrjun og verður framkvæmd og tímalengd kosninganna kynnt betur er nær dregur.

Þau verk sem hljóta brautargengi í kosningum íbúa verða framkvæmd á árunum 2020-2021. Þetta er í þriðja sinn sem Kópavogsbær stendur fyrir íbúaverkefninu Okkar Kópavogur.