Önnum kafin skólahljómsveit

Skólahljómsveit Kópavogs
Skólahljómsveit Kópavogs

Óhætt er að segja að mikið sé um að vera hjá Skólahljómsveit Kópavogs þessa dagana. Vortónleikar voru nýverið haldnir í Háskólabíói og voru þeir vel sóttir. Þar stigu um 160 börn á svið og fluttu fjölbreytta dagskrá, hágæða klassík, kraftmikið rokk og allt þar á milli.

A-sveitin, með yngstu börnunum, tók þátt í Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna á Selfossi fyrir ekki löngu síðan og C-sveitin, elstu krakkarnir, eru að undirbúa ferð til Þýskalands í júní. Þar mun hljómsveitin spila á tónleikum, heimsækja tónlistarskóla, fara á söfn og margt fleira.

Skólahljómsveitin var stofnuð á haustmánuðum 1966. Stofnandi sveitarinnar var Björn Á. Guðjónsson, trompetleikari, og stjórnaði hann hljómsveitinni óslitið og af miklum dugnaði fram til ársins 1993 þegar Össur Geirsson tók við stjórninni.

Að jafnaði eru um 170 hljóðfæraleikarar í Skólahljómsveit Kópavogs á hverjum vetri og er þeim skipt í þrjár sveitir eftir aldri og getu. Í A-sveit eru yngstu hljóðfæraleikararnir, úr 4.-6. bekk grunnskóla, í B-sveit nemendur úr 6.-8. bekk og í C-sveitinni eru krakkar úr 8.-10. bekk auk nokkurra eldri félaga.

Skólahljómsveit Kópavogs.