Góð ráð frá Ingrid Kuhlman

Ingrid Kuhlman.
Ingrid Kuhlman.

Jákvæðni og betri andleg líðan er umfjöllunarefni í fyrirlestri Ingrid Kuhlman sem félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi bjóða upp á. Fyrirlesturinn verður aðgengilegur á vef Kópavogsbæjar til mánudagsins 23.nóvember.

Félagsstarf eldri borgara hefur legið niðri vegna kórónaveirunnar og samkomutakmarkana sem henni fylgja og því hafa verið verulegar takmarkanir á félagslegum samskiptum meðal eldri borgara. Félagsmiðstöðum eldri borgara er mikið í mun að huga að andlegri líðan eldri borgara og er liður í þeim aðgerðum að bjóða upp á fyrirlesturinn.

Í honum er farið yfir 15 góð ráð og 3 jákvæð inngrip sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðum tilfinningum, jákvæðri hegðun og jákvæðum hugsunum.

Ingrid Kuhlman er leiðbeinandi og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun, auk þess að hafa meistaragráðu í jákvæðri sálfræði.

„Félagsleg samskipti og félagsleg líðan skipta miklu máli fyrir andlega heilsu auk þess getur fólk upplifað kvíða og óöryggi á þessum óvissutímum sem nú eru. Fyrirlesturinn er hvetjandi og áhugaverður og við viljum hvetja sem flesta til að hlusta á fyrirlesturinn “ segir Tinna Rós Finnbogadóttir, forstöðumaður félagsstarfs aldraðra í Kópavogi.  

Fyrirlesturinn er aðgengilegur hér .