Örvi starfsþjálfun 30 ára

Starfsmenn og skjólstæðingar Örva ásamt Jóni Jónssyni
Starfsmenn og skjólstæðingar Örva ásamt Jóni Jónssyni

Starfsemi starfsþjálfunarinnar Örva verður 30 ára í dag, 24. febrúar. Kópavogsbær tók yfir starfsemina þegar málefni fatlaðs fólks færðust yfir til sveitarfélaga í janúar 2011. Hjá Örva stendur fötluðum einstaklingum m.a. til boða starfsþjálfun í allt að 36 mánuði. Þar geta einstaklingar og fyrirtæki keypt pökkunarþjónustu og plastumbúðir. Örvi er til húsa á Kársnesbraut í Kópavogi.

Kópavogsbær átti reyndar frumkvæði að því að starfstöðin yrði stofnuð á sínum tíma og var starfsleyfi veitt árið 1983. Upphaflegur tilgangur var að stofna vinnustofu fyrir fatlaða, aldraða og konur sem vildu komast út af heimilinu. Bæjarfulltrúar áttu sæti í stjórn stofunnar til ársins 1996 en hún hafði m.a. það hlutverk að velja verkefni fyrir vinnustaðinn.

Með tímanum fór starfstöðin hins vegar að einbeita sér að fötluðu fólki og er markmiðið, eins og áður sagði, að hjálpa fólki að fóta sig á hinum almenna vinnumarkaði að starfsþjálfun lokinni.

Áður en fólk er tekið í starfsþjálfun fer það í starfspróf þar sem metinn er heildstætt möguleiki hins fatlaða til vinnu. Þar er farið yfir félagslega færni, kunnáttu, verkfærni og áhuga. Þetta starfspróf er mikilvægur hluti af starfseminni.

Hjá Örva geta einstaklingar eða fyrirtæki keypt pökkun, svo sem tímarit í plastpoka eða umpökkun vöru í minni einingar. En einnig eru þar framleiddar ýmsar plastumbúðir, t.d. botnar í konfektkassa, öskjur og fleira.

Um þessar mundir starfar 31 starfsmaður með skerta vinnugetu í Örva. Þeir eru ýmist í starfsþjálfun eða í starfsprófun. Allir eru þeir í 50% starfi. Aðrir starfsmenn eru 7 í 6,35 stöðugildum.

Í starfsþjálfuninni hjá Örva er lögð áhersla á þarfir hvers og eins einstaklings. Lögð er áhersla á rétt vinnubrögð, aukið starfsþrek og félagsleg samskipti. Að öllu jöfnu er miðað við að þjálfunin standi yfir í 18 mánuði en hægt er að framlengja hana í 36 mánuði. Enginn er þó útskrifaður frá Örva án vinnuúrræðis á hinum almenna markaði.

Starfsfólk gerði sér glaðan dag í dag og kom m.a. Jón Jónsson skemmtikraftur og hélt fjörinu uppi með leik og söng. Hópinn má sjá á meðfylgjandi mynd.