Pieta samtökin hljóta viðurkenningu jafnréttis- og mannréttindaráðs

Á myndinni eru frá vinstri: Gunnar Sær Ragnarsson,  Guðlaug Ósk Gísladóttir, Kristín Ólafsdóttir og…
Á myndinni eru frá vinstri: Gunnar Sær Ragnarsson, Guðlaug Ósk Gísladóttir, Kristín Ólafsdóttir og Ármann Kr. Ólafsson.

Pieta samtökin hlutu viðurkenningu jafnréttis- og mannréttindaráðs Kópavogsbæjar árið 2020. Kristín Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Pieta samtakanna og Guðlaug Ósk Gísladóttir , sem situr í stjórn samtakanna, tóku við viðurkenningunni fyrir hönd Pieta. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, og Gunnar Sær Ragnarsson, formaður ráðsins, afhentu viðurkenninguna og styrk jafnréttis- og mannréttindaráðs sem veittur er ár hvert og kemur einnig í hlut Pieta-samtakanna að þessu sinni.

Pieta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Mikil aukning hefur verið á símtölum til samtakanna í ár og eftirspurn eftir þjónustu tvöfaldast á milli áranna 2019 og 2020.

„Áhrif Covid-19 skýra þessa aukningu að minnsta kosti að hluta til. Heimsfaraldurinn leggst þungt á fólk. En starfsemi okkar er líka að verða þekktari og fleiri sem vita að hægt er að leita til okkar. Það er afar ánægjulegt að fá viðurkenningu jafnréttis- og mannréttindaráðs og styrkurinn mun nýtast vel. Kópavogsbær hefur stutt okkur myndarlega áður, fyrir það erum við þakklát,“sagði Kristín við tækifærið.

Jafnréttis- og mannréttindaráð Kópavogsbæjar veitir árlega viðurkenningu til aðila sem ráðið telur hafa staðið sig vel á sviði jafnréttis og mannréttinda. Viðurkenningin  var nú afhent í sextánda sinn. Styrkurinn er einnig árlegur og er upphæð hans 400 þúsund.

Viðurkenningin var afhent við hús Kópavogsbæjar við Kópavogsgerði 8 sem nýverið var tilkynnt um að yrði tekið undir starfsemi sem sem tengist geðrækt og lýðheilsu.