Plasthreinsun í Kópavogi

Samstöðuplaggat gegn plasti í Kópavogi
Samstöðuplaggat gegn plasti í Kópavogi

Þriðjudaginn 13. júní verður dagurinn „Kópavogur gegn plasti“ haldinn hjá Vinnuskóla Kópavogs. 450 starfsmenn á vegum Vinnuskólans munu þræða bæinn og tína upp allt plast sem á vegi þeirra verður. Auk Vinnuskólans tekur Þjónustumiðstöð Kópavogbæjar þátt í plasthreinsuninni og verða allir sumarstarfsmenn bæjarins sem sinna garðvinnu í plasthreinsun þennan dag. Þá tekur Blái herinn þátt í deginum og liðsinnir við hreinsun á plasti á strandlengjunni í Kópavogi.

Vinnuskólinn hvetur alla Kópavogsbúa til að taka þátt í að hreinsa bæinn og fjarlægja allt plast, hvort sem það er í garðinum heima, í kringum húsið, á bílastæðinu eða á leiðinni í vinnuna. 

Settir verða upp gámar frá Gámaþjónustunni hf. á fimm stöðum í bænum;

Við Hörðuvallaskóla
Álfhólsskóla
Menntaskólann í Kópavogi 
Kársnesskóla
Lindaskóla

Bæjarbúum býðst að koma með úrgangsplast sem farið verður með í endurvinnslu í gámana. Gámarnir verða á þessum stöðum fram á miðvikudaginn 14. júní.

Í lokin verður verður allt plastið vigtað til að setja tölu á dagsverkið og til að sjá hversu mikið plast liggur á víð og dreif um bæinn. Það verður síðan vonandi hvatning til starfsmanna Vinnuskólans sem og bæjarbúa til að minnka plastnotkun í framtíðinni. 

Leggjumst öll á eitt og hreinsum bæinn okkar saman!