Platínuvottun lífskjara- og þjónustustaðals til Kópavogs

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og dr. Patricia L. McCarney forstjóri WCCD.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og dr. Patricia L. McCarney forstjóri WCCD.

Kópavogsbær fékk í dag afhent skírteini um platínuvottun lífskjara- og þjónustustaðalsins ISO 37120. Það var dr. Patricia L. McCarney, forstjóri World Council on City Data (WCCD) sem afhenti Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, skírteinið við hátíðlega viðhöfn í Gerðarsafni í Kópavogi.

 

Með því að uppfylla staðalinn er Kópavogur orðinn hluti af hópi sveitarfélaga á alþjóðavísu sem öll mæla á sama hátt um 100 vísa sem segja til um félagslegan, efnahagslegan og umhverfislegan árangur sveitarfélagsins. Þess ber að geta að staðallinn styður við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna en verið er að innleiða þau hjá Kópavogsbæ.

 

„Við erum verulega stolt að vera fyrsta sveitarfélag á Íslandi til að uppfylla lífskjara- og þjónustustaðalinn.  Hjá Kópavogi höfum við undanfarin ár unnið markvisst að því að bæta mælingar á ýmsum þáttum í starfi sveitarfélagsins. Það nýtist okkur til að fylgjast betur með árangri af settum stefnum og markmiðum, gerir rekstur sveitarfélagsins betri og bæinn betri til búsetu,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs við afhendinguna.

 

Dr. McCarney óskaði bæjarstjóra, bæjarstjórn og starfsfólki til hamingju með vinnuna í tengslum við staðalinn. „Staðlaðar mælingar auka lífsgæði íbúa og stuðla að ákvarðanatökum sem byggir á gögnum og staðreyndum. Kópavogsbær er í fararbroddi þegar kemur að búa til gott samfélag fyrir íbúa bæjarins til lengri og skemmri tíma.“

 

WCCD heldur utan um samanburðarhæfingar mælingar sveitarfélaga  á alþjóðavísu. WCCD hefur þróað staðalinn sem ber númerið ISO 37120. Hann er fyrsti alþjóðlegi staðallinn um gögn sem tengjast sveitarfélögum og heldur utan um skrá sveitarfélaga sem fengið hafa vottun á ISO 37120. Á vefsíðu tileinkaðri staðlinum, má nálgast aðgengilegar upplýsingar um vottuð sveitarfélög og stöðu árangursmælinga þeirra.