Ræktun matjurta, ávaxtatrjáa og berjarunna

Frá fræðsludegi í Trjásafninu Meltungu.
Frá fræðsludegi í Trjásafninu Meltungu.

Fræðsla í Trjásafninu í Kópavogi  25. maí frá kl 13:00 – 16:00

Aldingarðurinn og garðlöndin í Meltungu

Í Trjásafninu í Meltungu, í austanverðum Fossvogsdal, er eitt merkasta og fjölbreyttasta trjásafn (arboretum) landsins en þar er að finna hátt í 1.100 tegundir trjáa og runna. Í hluta safnsins, svokölluðum Aldingarði, eru um 50 yrki (sortir) epla-, plómu-, peru- og kirsiberjatrjáa auk um 40 yrkja sólberja, rifsberja og stikilsberja. Á  sömu slóðum í Trjásafninu, neðan við Kjarrhólma, er hátt í helmingur þeirra  garðlanda sem bærinn býður upp á. Garðlöndin eru skikar sem bæjarbúar geta leigt til grænmetisræktunar.

Laugardaginn 25. maí nk. mun Kópavogsbær í samstarfi við Garðyrkjufélag Íslands standa fyrir fyrsta viðburði sumarsins í Trjásafninu. Jóhanna B. Magnúsdóttir garðyrkjufræðingur frá Dalsá í Mosfellsdal verður með sýnikennslu og fræðslu um grænmetisræktun í garðlöndunum og umsjónarmaður Aldingarðsins, Jón Guðmundsson garðyrkjumaður á Akranesi, verður á staðnum að sinna Aldingarðinum, en bæði eru þau landsfræg fyrir ræktunareynslu og -þekkingu sína.

Þetta stendur yfir kl. 13:00 – 16:00 og eru bæjarbúar, félagar Garðyrkjufélagsins sem og aðrir hvattir til að nota tækifærið og spyrja þessa reynslubolta út í ræktun grænmetis, ávaxtatrjáa og berjarunna. Best er að komast á staðinn frá austurenda bílastæðanna við Kjarrhólma og ganga eftir stígunum þar norður af.