Rafíþróttir og heilsukort styrkt

Á mynd eru frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Steinar Már Unnarsson forsvarsmað…
Á mynd eru frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Steinar Már Unnarsson forsvarsmaður rafíþróttaverkefnis, Bergþóra Þórhallsdóttir frá heilsukorti barna og ungmenna og Margrét Friðriksdóttir formaður menntaráðs.

Tvö verkefni fengu samtals 1.600.000 þúsund þegar úthlutað var úr forvarnarsjóði Kópavogs, rafíþróttir og heilsukort barna og ungmenna. Styrkirnir voru afhentir þriðjudaginn 4.júní.

Við val á styrkþegum var að þessu sinni áhersla lögð á andlega líðan unglinga og heilsueflingu. Auglýst var eftir verkefnum og sá valnefnd Menntaráðs um valið.

Nánar um verkefnin:

Rafíþróttir

Meginmarkmið verkefnisins er að sporna við félagslegri einangrun unglinga, virkja þátttakendur í hópastarfi undir leiðsögn fagfólks og gefa þeim möguleika á að stunda áhugamál sitt í öruggu, uppbyggilegu og jákvæðu umhverfi með jafningjum.

Markhópur verkefnisins eru unglingar sem taka öllu jafna ekki þátt í skipulögðum tómstundum. Verkefnið stefnir að því að auka félagsþroska, fræða þátttakendur um heilbrigðan lífsstíl, heilbrigða tölvu- og nethætti og mikilvægi uppbyggilegra tómstunda.

Félags- og forvarnar gildi hópíþrótta eru vel þekkt. Sömu lögmál gilda um hópa sama hvert viðfangsefnið er. Því er tilvalið að nota áhugamál krakkana sem leið til að hvetja þau til hópaþátttöku. Með því að gera tölvuleikjaspilun í hóp aðgengilegri og áhugaverðari verður spilun í einrúmi heima ekki jafn spennandi.

Heilsukort barna og ungmenna

Meginmarkmið verkefnisins er að:

•             gera heilsukort sem er handhægt efni sem leiðbeinir börnum, ungmennum og foreldrum þeirra í samræðu um ákjósanleg viðmið um skjánotkun með tilliti til svefns, hreyfingar, ræktunar vina, samveru fjölskyldu og ástundun áhugamála.

•             bæta andlega líðan barna og unglinga.

•             stuðla að heilbrigðri skjánotkun barna og unglinga

Heilsukort barna og ungmenna er einblöðungur með korti sem byggir á fimm stoðum sem talið er mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um skjánotkun barna og ungmenna. Stoðirnar fimm eru: Svefn, hreyfing, ræktun vina, samvera fjölskyldu og ástundun áhugamála.

Hlutverk forvarnarsjóðs er að stuðla að öflugum forvörnum í Kópavogi. Menntasvið Kópavogsbæjar hefur umsjón með sjóðnum í umboði menntaráðs. Verkefnin sem sjóðurinn styrkir eru valin af valnefnd, en skipað er í hana af menntaráði.