Rakaskemmdir í Efstahjalla

Efstihjalli í Kópavogi.
Efstihjalli í Kópavogi.

Farið var í lagfæringar á þakrými leikskólans Efstahjalla eftir að myglugró greindist í sýni sem tekið var í þakrými þar í nóvember og fannst í snefilmagni inni í leikskólanum.

Blikktúður þakrými leikskólans hafa verið þéttar en frágangur á þeim var ófullnægjandi. Að þeim viðgerðum loknum voru tekin sýni um allan leikskóla og er búist við niðurstöðum þeirra innan þriggja vikna.

Gerð verður allsherjar hreingerning á leikskólanum og að henni lokinni verða tekin ný sýni.

Þá er á áætlun að skipta um einangrun í þakrými. Sú vinna hefst eftir helgi og er stefnt að því að henni ljúki fyrir jól.

Fulltrúar Heilbrigðiseftirlitsins hafa sótt skólann heim og kannað aðstæður. Að mati fulltrúa þess var ekki tilefni til að loka leikskólanum.

Áfram verður unnið eftir viðbragðs- og framkvæmdaáætlun vegna málsins.