RIFF-dagskrá í menningarhúsum

Stuttmyndir í Sundlaug Kópavogs í tengslum við RIFF, kvikmyndahátíð.
Stuttmyndir í Sundlaug Kópavogs í tengslum við RIFF, kvikmyndahátíð.
Mikið verður um að vera í menningarhúsum í Kópavogi á morgun, 4. október, í tengslum við RIFF kvikmyndahátíð. Ungt fólk leikur stórt hlutverk í viðburðum dagsins sem hefjast með kvikmyndasýningu í Smárabíói þar sem sýndar verða myndir sem nemendur gerðu á stuttmyndanámskeiði RIFF.

Þá verður sérstök sýning á stuttmyndum í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs. Myndirnar kepptu um Gullmolann, í stuttmyndakeppni Kópavogs í sumar. Í Bókasafni Kópavogs verður pallborðsumræða um ferlið að breyta bók í bíó þar sem rithöfundar og leikstjórar taka þátt.

Þá verður sýnt brot úr kvikmyndasafni Marteins Sigurgeirssonar í héraðsskjalasafninu sem endurspeglar sögu bæjarins og í Tónlistarsafni Íslands verða sýndar myndbrot úr íslensku þjóðlífi við harmonikkuundirleik Margrétar Arnardóttur.

„Það er tilvalið að þræða menningarhúsin í Kópavogi á morgun, skoða heimildamyndir, hlusta á málþingið og fylgjast með stuttmyndagerð unga fólksins,“ segir Arna Schram forstöðumaður Listhúss Kópavogs. Ókeypis er inn á alla viðburðina.

Dagskrá morgundagsins er lokahnykkur á fjölbreyttri dagskrá í Kópavogi í tengslum við RIFF. Í vikunni mátti meðal annars sjá stuttmyndir í Sundlaug Kópavogs, Sólstafi flytja tónlist við Hrafninn flýgur eftir Hrafn Gunnlaugsson á kvikmyndatónleikum í Salnum og þá var kynning á einnar mínútu myndagerð fyrir ungt fólk.

RIFF er í ár styrkt með framlagi úr lista- og menningarsjóði Kópavogs. Hlutverk sjóðsins er að efla lista- og menningarlíf bæjarins.

TÍMASETNINGAR:

Smárabíó kl. 12.: Stuttmyndanámskeið RIFF.

Héraðsskjalasafn Kópavogs kl. 13-17: Brot úr kvikmyndasafni Marteins Sigurgeirssonar.

Bókasafn Kópavogs kl. 14-16: Pallborðsumræður: Bók verður bíó

Tónlistarsafn Kópavogs kl. 16 -18: Kvikmyndun á tónlistararfi Íslendinga.

Molinn kl. 17-19. RIFF-sýning Gullmolans.