Roðasalir 10 ára

Inga Lóa Ármannsdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Guðrún Lóa Jónsdóttir, Guðrún Viggósdóttir og Ída Atl…
Inga Lóa Ármannsdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Guðrún Lóa Jónsdóttir, Guðrún Viggósdóttir og Ída Atladóttir í 10 ára afmæli Roðasala.

Hjúkrunarheimilið Roðasalir í Kópavogi hélt upp á 10 ára afmæli sitt mánudaginn 19. janúar. Roðasalir eru hjúkrunarheimili fyrir einstaklinga sem glíma við minnistap á fyrri stigum. Þar búa 10 einstaklingar  auk þess sem 20 eru í dagþjálfun í Roðasölum, þá er eitt hvíldarinnlagnarpláss á heimilinu. Í Roðasölum er mikið lagt upp úr heimilislegum anda og hugmyndafræði Donnu Algase um hjúkrun einstaklinga sem glíma við minnissjúkdóma. 

Lögð er áhersla á að hafa hjúkrunarsambýlið sem heimilislegast og sem líkast venjulegu heimili meðal annars með því að elda heimilismat og hafa allt yfirbragð notalegt og aðlaðandi. Að auki er lögð áhersla á tómstundastarf og líkamsþjálfun ásamt því að virkja fólk eins og hægt er til þátttöku daglegra verka á heimilinu.

Um 30 starfsmenn starfa á Roðasölum. Forstöðumaður heimilisins er Ída Atladóttir en hún hefur sinnt því starfi  í átta ár. Ída er hjúkrunarfræðingur með meistaragráðu í öldrunarhjúkrun. Þess má geta að 5 starfsmenn Roðasala hafa starfað þar frá upphafi, það eru þær Guðrún Viggósdóttir deildarstjóri í sambýli, Helga Guðmundsdóttir sjúkraliði, Helga María Arnarsdóttir deildarstjóri í dagþjálfun, Guðrún Lóa Jónsdóttir sjúkraliði og Jóhanna Jónsdóttir.

Rekstur Roðasala byggir á daggjöldum frá ríkinu og framlagi frá Kópavogsbæ.

Í tilefni afmælisdagsins var boðið til veislu þar sem starfsfólk, vistmenn og góðir gestir komu saman.