Ráðið í tvær sviðsstjórastöður

Kristín Egilsdóttir og Pálmi Þór Másson.
Kristín Egilsdóttir og Pálmi Þór Másson.

Ráðið hefur verið í tvær sviðsstjórastöður hjá Kópavogsbæ, sviðsstjóra stjórnsýslusviðs og sviðsstjóra fjármálasviðs sem er nýtt svið hjá bænum.

Kristín Egilsdóttir var ráðinn sviðsstjóri fjármálasviðs úr hópi 51 umsækjenda.

Kristín lauk Cand.Oecon í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands af endurskoðunarsviði árið 1994, diplómu í leiðtogafræðum frá UBI í Brussel 2004 og meistaragráðu í leiðtogafræðum frá Thierry Graduate School of Leadership í Brussel 2007.  Kristín starfaði hjá Eimskip á árunum 1994-2001 sem deildarstjóri Farmskjalavinnslu, deildarstjóri reikningavinnslu og deildarstjóri Hagdeildar.

Hún starfaði hjá EFTA á árunum 2004-2006 sem fjármálasérfræðingur. Þá starfaði hún hjá Reykjavíkurborg á árunum 2007-2013, fyrst sem fjármálastjóri Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar og síðar sem fjármálastjóri Skóla- og frístundasviðs. 

Frá árinu 2013 hefur Kristín starfað sem fjármálastjóri Nóa Síríus auk þess að hafa verið í endurskoðunarnefnd Sjóvá og Sjóvá Líf 2016-1019, var hún formaður nefndanna 2018-2019 og varamaður í stjórn Sjóvá frá 2017-2019.

Pálmi Þór Másson var ráðinn í stöðu sviðsstjóra stjórnsýslusviðs úr hópi 65 umsækjenda.

Pálmi lauk Cand.jur. lögfræðigráðu frá Háskóla Íslands árið 2006 og hlaut lögmannsréttindi 2008.  Á árunum 2006-2008 starfaði hann sem löglærður aðstoðarmaður dómara hjá Héraðsdómi Suðurlands og sinnti sama starfi árið 2008 hjá Héraðsdómi Reykjaness.  Pálmi starfaði hjá sveitarfélaginu Álftanesi á árunum 2008-2013, fyrst sem bæjarlögmaður og starfsmannastjóri 2008-2009 og síðar sem bæjarstjóri á árunum 2009-2012 samhliða fyrri verkefnum.

Árið 2012 hóf Pálmi störf hjá Kópavogsbæ sem bæjarlögmaður (deildarstjóri lögfræðideildar) og sinnti árið 2017 afleysingu sviðsstjóra stjórnsýslusviðs auk þess sem hann hefur gegnt því starfið 2019-2020.