Sækja Kópavog heim

World Council on City Data.
World Council on City Data.

Fulltrúar Efnhags- og framfarastofnunarinnar, OECD, og World Council on City Data, WCCD, sækja Kópavog heim í vikunni og kynna sér meðal annars Mælkó, hugbúnað Kópavogsbæjar sem heldur utan um tölfræði sveitarfélagsins og auðveldar úrvinnslu gagna.

Kópavogsbær hefur haft veg og vanda að skipulagningu heimsóknarinnar en fulltrúar OECD og WCCD munu hitta fulltrúa forsætis- og félagsmálaráðuneytis, sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu og UNICEF á Íslandi.

Kópavogsbær fékk í vetur vottun um að bærinn uppfylli lífskjara- og þjónustustaðal WCCD, ISO 37120. Með því að uppfylla staðalinn er Kópavogur orðinn hluti af hópi sveitarfélaga á alþjóðavísu sem öll mæla á sama hátt um 100 vísa sem segja til um félagslegan, efnahagslegan og umhverfislegan árangur sveitarfélagsins.

Þá er Kópavogsbær í samvinnu við OECD um gerð mælikvarða sem nýta má við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Hjá Kópavogsbæ er verið að nýta mælikvarða og mælingar á þjónustu sveitarfélagsins við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með það að sjónarmiði að fylgjast með árangri og auka þannig skilvirkni í starfsemi sveitarfélagsins.

Heimsókninni lýkur á fimmtudag en þann dag mun dr. Patricia L. McCarney, forstjóri WCCD afhenda Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs skírteini um platínuvottun ISO 37120.