Það er hátíð í bæ í Múlalind 1 þar sem hjónin Sigríður Stefánsdóttir og Jóhann Sævarsson skreyta húsið sitt hátt og lágt svo eftir er tekið. Þau segja jólahúsið eitt allsherjar ævintýr sem geymi líf þeirra á svo fallegan hátt en þar hafa þau gift sig, eignast jólabarn og fundið rómantískar leynigjafir.
„Stemningin hér á aðventunni minnir rúntinn niður Laugaveginn, það er stöðug umferð fólks að skoða húsin og hún eykst bara eftir því sem nær dregur jólum. Fólk stoppar og gefur sig á tal við okkur til að þakka okkur fyrir ljósadýrðina, og svo koma börnin og stara hugfangin á jólajósin og fígúrurnar og það er gaman að sjá. Enda skreytum við ekki bara fyrir okkur sjálf heldur einnig til að gleðja aðra. Þessi látlausa traffík pirrar hvorki okkur né nágranna okkar og sannar að það er sælla að gefa en þiggja,“ segir húsfreyjan Sigríður Stefánsdóttir, alltaf kölluð Sirrý.
Eiginmaðurinn Jóhann Sævarsson bifreiðasmíðameistari bætir við: „Í hitteðfyrra kom gömul kona að máli við mig og sagði: „Veistu að jólaljósin ykkar lífga upp á sálina mína í svartasta skammdeginu.“ Þessi orð hennar hreyfðu við mér og þessi kona ók framhjá húsinu minnst einu sinni í viku bara til að fá ljós í tilveruna."
Engin samkeppni
Sirrý og Jóhann búa í Múlalind 1, einu af mest skreyttu húsum Kópavogs, en faðir Jóhanns, Sævar Pétursson bifvélavirki og þáverandi eigandi hússins, fékk viðurkenningu Kópavogsbæjar fyrir best skreytta jólahúsið árið 2016.
„Pabbi, sem er nýlega látinn, var fyrirmynd mín í jólaskreytingum og ég tók við skreytihefðinni af honum. Við keyptum húsið af mömmu og pabba árið 2020 og þá var pabbi byrjaður að skreyta með blikandi ljósadýrð og jólasveinum í garðinum. Síðan höfum við Sirrý bætt í með hverju árinu sem líður. Hún sér um innanhússskreytingarnar og ég útiskreytingarnar. Við erum óforbetranleg jólabörn og samstíga í því að skreyta mikið,“ segir Jóhann.
Í Múlalind standa sjö hús. Öll eru þau fagurlega skreytt og metnaður lagður í jólaskreytingarnar.
„Það ríkir mikil jólastemning í götunni og nágranni okkar á númer 2 byrjaði að skreyta sitt hús í stórum stíl á undan okkur. Því er stundum spurt hvort við séum í samkeppni en það er nú ekki svo. Í ár voru samantekin ráð að kveikja jólaljósin á húsunum í Múlalind klukkan sex þann 22. nóvember og nú hefur skapast skemmtileg hefð fyrir því að koma saman á eftir í einu húsanna til að eiga jólalega stund saman yfir heitu súkkulaði og piparkökum, sem er mikil gleði og gaman,“ segir Jóhann kátur.
Lífið er í húsinu heima
Þegar keyrt er um Hlíðardalsveg í Lindahverfinu fer ekki á milli mála hvar jólagleðin byrjar því ljómi ljósadýrðarinnar í Múlalind blasir við hverjum þeim sem framhjá fer.
„Nei, ég hef ekki slegið á fjölda ljósaperanna á húsinu og vil ekki vita það. Það fylgir þó enginn uggur eða áhætta að stinga öllu seríuverkinu í samband, eins og margir kannast við úr bíómyndinni Christmas Vacation; ég er búinn að gera þetta svo lengi að það getur ekkert klikkað. Það er heldur ekki stórmál ef slokknar á lengjunni og þá skipt út seríum í heilu lagi; ekki eins og þegar slokknaði hér í denn og þurfti að athuga hverja einustu peru til að athuga hver það nú var sem var sprungin. Það var náttúrlega bilun,“ segir Jóhann og hlær.
Jóhann er úr Breiðholtinu. Sirrý úr Kópavogi síðan á öðru aldursárinu en fædd í Dyrhólum í Mýrdal.
„Ég er aðfluttur Kópavogsbúi, finnst Kópavogur æðislegur staður og Kópavogsbúar frábært fólk. Hverfið okkar er ungt og lifandi og mikið um krakka sem geta farið frjálsir um allt. Hér er sannarlega gott að vera og þegar mamma og pabbi vildu selja Múlalindina kom ekki annað til greina en að kaupa húsið því við vildum ekki láta það frá okkur. Húsinu fylgja svo margar dýrmætar minningar og hér er lífið sjálft,“ segir Jóhann.
Giftust óvænt í barnaafmæli
Þau Sirrý og Jóhann kynntust í gegnum sameiginlega vini í Kópavoginum.
„Hér kviknaði ástin og hér í húsinu giftum við okkur í tveggja ára afmæli Ragnheiðar dóttur okkar. Þá bjuggum við í Seljahverfinu og sögðum ósatt um að pípulagnirnar heima væru í ólestri. Hvort við mættum halda afmæli Ragnheiðar í Múlalindinni? Það var auðsótt mál og var því haldið barnaafmæli með pompi og prakt en í miðju afmæli marseraði séra Ólafur Jóhann Borgþórsson, þáverandi prestur í Seljakirkju, inn í húsið í fullum skrúða, syngjandi hástöfum brúðarmarsinn af krafti. Í annríki dagsins hafi hann hoppað út í bíl í skrúðanum á milli athafna en það hafði hann aldrei gert áður og mér fannst það gott hjá honum. Fólk vissi auðvitað ekkert hvaðan á sig stóð veðrið og rann ekki í grun um hvað væri að gerast, hvað þá brúðkaup, en Siggi bróðir hafði áður haldið sína brúðkaupsveislu í húsinu og ég vildi auðvitað gera það líka,“ segir Jóhann frá um eftirminnilegan brúðkaupsdaginn en þau Sirrý eiga tíu ára brúðkaupsafmæli á nýárinu.
„Okkur þykir gaman að koma fólki á óvart,“ segir Sirrý. „Við erum bæði hógvær, viljum ekki of mikið tilstand og fannst því tilvalið að slá saman afmæli og brúðkaupi. Enginn vissi af þessu nema systir mín og tengdapabbi sem voru svaramenn. Ég var í hvítum kjól undir jakka svo engan grunaði neitt og þegar tengdapabbi var að klæða sig í kjólfötin spurði tengdamamma í forundran af hverju hann væri svona rosalega fínn. Hann þyrfti þess nú ekki í barnaafmæli og skipaði honum úr, og auðvitað hlýddi hann svo ekki kæmist upp um ráðahaginn. Upplitið á gestunum var óborganlegt og yndislegt þegar séra Ólafur mætti inn á stofugólf syngjandi hástöfum, enda raddmikill og líflegur. Svo var snarað fram brúðartertu og skipti engu þótt afmælisgestir Ragnheiðar hafi ekki haft brúðargjafir meðferðis enda giftumst við ekki til að fá gjafir.“
Eignuðust jólabarn á aðventunni
Kærasta jólaminning Sirrýjar og Jóhanns hverfist um þá hamingju þegar þau eignuðust jólastúlkuna Sævöru Petru á aðventunni árið 2017.
„Sævör Petra átti að fæðast nær jólahátíðinni en henni lá á að komast í heiminn og fæddist aðeins fyrir tímann 3. desember. Það var yndisleg aðventa og jól að vera með lítinn hvítvoðung í jólaljósunum. Nýfæddum börnum fylgir svo mikil fegurð og friður og voru fyrstu jólin hennar eftirminnilega notaleg,“ segir Sirrý sællar minningar.
Þau hjónin eru vanalega tilbúin með allt sem viðkemur jólahátíðinni þegar aðventan hefst.
„Það er gott að vera búin að öllu snemma. Maður nýtur aðventunnar betur sem fjölskylda, að þurfa ekki að vera fastur í umferð og búðum. Þetta er töfrandi tími til að vera saman í jólaljósunum og við njótum þess að húsið er skreytt í topp bæði inni og úti, gerum jólalega hluti, horfum á jólamyndir saman, skoðum jóladýrð húsanna, förum í jólaþorpin, á jólatónleika, jólahlaðborð og hvaðeina. Stelpurnar okkar eru á aldrinum 8, 11 og 18 ára en sú elsta er flutt að heiman með kærastanum. Þær dýrka allt þetta jólaskraut en eru orðnar vanar því á meðan vinkonur þeirra grípa andann á lofti, ganga um agndofa og skoða þetta ævintýri,“ segir Sirrý.
Hún á fagrar minningar um æskujólin.
„Mamma gerði jólin alltaf svo yndisleg. Hún var ein með okkur fimm systkinin, sá um allan undirbúninginn svo óaðfinnanlega og gerði allt til að gefa okkur falleg og gleðileg jól. Ég nýt þess enn að fá fulla kökudunka af nýbökuðum smákökum frá mömmu og hef það frá henni að vilja skapa falleg jól fyrir fjölskylduna.“
Jóhann átti líka indæl æskujól.
„Við erum tveir bræðurnir og áttum jólin með mömmu, pabba og ömmu. Það var alltaf mikið skreytt og eftirsjá af gömlu útiseríunum með stóru ljósaperunum sem voru svo einkennandi fyrir Breiðholtið í þá daga þegar heilu blokkirnar voru í stíl,“ segir Jóhann.
Þau eru sér á parti í stórfjölskyldunni þegar kemur að stórtækum jólaskreytingum en systir Sirrýjar hefur byggt stórkostlegt jólaþorp úr Lego-kubbum sem er sjón að sjá.
„Að skreyta húsið hátt og lágt er auðvitað heilmikið verk. Innanhúss tekur það tvo til þrjá daga og útivinnan er kannski góður laugardagur. Ég er orðinn vanur þessari vinnu og með gott skipulag á hlutunum. Við vorum yfirleitt fyrr í því að kveikja jólaljósin en ein í götunni fékk okkur til að stremma okkur af og Sirrý vill helst ekki kveikja fyrr en eftir hrekkjavökuna. Ég reyni þó að setja ljós á þakkantinn í október. Það lífgar svo upp á og svo veit maður aldrei hvernig veðrið verður. Það er nefnilega hræðilegt að standa í þessu í hríðarbyl,“ segir Jóhann, en jólaljósin slökkva þau á Þrettándanum.
Mætti alveg skreyta meira
Nýjasta jólaskrautið í garðinum er rokkjólasveinn með rafmagnsgítar.
„Við erum alltaf á höttunum eftir flottu jólaskrauti, ekki síst frúin,“ segir Jóhann glaðvær, en þau hjónin skipta öllu út á heimilinu til að koma jólaskrautinu að.
„Já, það er erfitt að stoppa mig af,“ segir Sirrý og hlær. „Ég er úti um allt og árið um kring að skoða jólaskraut, á netinu og í verslunum hér heima. Við bætum við á hverju ári og kaupum einn til tíu hluti á ári, oft á vorin eða sumrin þegar jólaskraut er á miklu betra verði. Inni þurfa svo hlutir að hverfa og skrautmunir að fara í geymslu til að koma öllu jólaskrautinu að.“
Í dálæti hjá Sirrý eru fjörtíu ára gamlir englar sem móðir hennar gaf henni, en eftirlætis jólaskraut Jóhanns eru stórir, gamlir plastjólasveinar sem hann erfði eftir pabba sinn og eru ófáanlegir í dag.
„Gömlu jólasveinarnir hafa glatt okkur bræðurna í þrjátíu ár og snerta streng í hjörtum okkar vegna ljúfra minninga. Þegar pabbi rak réttingaverkstæði í Skeifunni setti hann þá á þakið þar en svo komu þeir heim í garð. Þeir eru orðnir snjáðir en alltaf jafn sætir og ég er að hugsa um að mála þá fyrir næstu jól til að fríska upp á litina,“ segir Jóhann.
Þau hjónin eru síst komin með leiða á jólaljósum, jólaskrauti og umstanginu sem fylgir því að vera með eitt af mest skreyttu húsum höfuðborgarsvæðisins.
„Nei, og ef við fáum leiða á einhverju setjum við það til hliðar. Að mínu mati mætti alveg skreyta meira og mér finnst hálftómlegt hérna núna,“ segir Jóhann og skellir upp úr. „Kannski við setjum seríur í stofuloftin fyrir næstu jól, en hér er þó ansi hátt til lofts. Það væri án efa fallegt.“
Seríur utanhúss eru allar keyptar á Íslandi fyrir íslenskar aðstæður.
„Hver sería er dýr en LED-perur spara orkunotkunina. Ég prófaði að kaupa útiseríur á Temu en horfði svo á þær tætast í sundur í íslenska rokinu. Öryggið þarf að vera í fyrirrúmi.“
Leynigjöf undir koddanum
Það var jú Kópavogur sem hæfði þau Sirrý og Jóhann ástarörvum.
„Kópavogur er okkar bær og staðurinn sem færði okkur hvort annað. Mér hefur aldrei liðið eins vel og hér í Múlalind. Stelpunum okkar finnst líka æðislegt að eiga heima akkúrat hér á horninu því jólalest Coca-Cola keyrir alltaf framhjá húsinu okkar þegar hún fer niður Hlíðardalsveginn. Það passar heldur betur vel við jólastemninguna hér í jólagötunni. Þá höfum við fyrir sið og aldeilis hæg heimatökin að fara út í garð og veifa jólasveinunum í lestinni, svo gaman,“ segir Sirrý sem sjálf finnur frið í því að fara inn í jólagötur og sjá fegurðina í ljósunum og skreytingunum.
Þau hjónin gefa hvort öðru jólagjafir og hefur Sirrý þegar sett jólagjöfina hans Jóhanns undir tréð.
„Fyrstu árin setti Jóhann alltaf leynigjöf undir koddann minn sem ég fann þegar við fórum að sofa. Það var skemmtilega óvænt og oftar en ekki leyndist fallegur skartgripur í pakkanum,“ greinir Sirrý frá og Jóhann tekur af henni orðið.
„En svo vissi hún orðið af gjöfinni undir koddanum og þá var ekki hægt að gera það lengur.“
„Jóhann er þó hvergi hættur að koma mér á óvart og setur jafnvel lítinn pakka inn í jólatréð eða felur hann á óvæntum stöðum og hann hittir alltaf í mark, veit hvað ég vil,“ segir Sirrý sæl.
Á gamlárskvöld kemur móðir Jóhanns heim til fjölskyldunnar á sitt gamla heimili en á aðfangadag er fjölskyldan heima með móður og bróður Sirrýjar. Á borðum er hamborgarhryggur, lambahryggur og ís í eftirmat.
„Við hlustum á aftansönginn í útvarpinu og kirkjuklukkurnar hringja inn jólin klukkan sex. Fyrstu árin vorum við alltaf að spenna okkur á að setjast til borðs á slaginu sex en nú erum við afslappaðri og borðum nær hálfsjö,“ segir Sirrý.
Enginn gengur að öðrum vísum
Það besta við jólin segja þau hjónin vera samveruna með fólkinu sínu, að borða góðan mat og njóta hátíðarinnar saman.
„Mér finnst mjög gaman að dúllast í eldhúsinu og elda jólamatinn. Líka að kenna stelpunum að undirbúa og halda jól og heimili og að geta þá kannski boðið okkur í mat seinna meir. Samveran skiptir þó öllu máli og maður áttar sig á að jólin snúast um tíma til að vera saman og með fólkinu sínu. Eða eins og bróðir minn segir þá finnst honum ekki vera jól nema að sjá stelpurnar opna jólagjafirnar, þakklæti þeirra og einlæga gleði, jafnvel þótt það séu bara sokkar í pakkanum,“ segir Sirrý og hlakkar mikið til jólanna.
„Ég gef mikið fyrir að eiga jólin með mínum nánustu. Í dag erum við átta saman um jól en þetta fólk eldist allt og einn daginn situr það ekki lengur við jólaborðið. Það gengur enginn að öðrum vísum og á þessum tíma hugsar maður um hvað fólkið manns er dýrmætt og að njóta þess að eiga það að. Um það snúast jólin. Að njóta notalegrar samveru með fjölskyldunni og vera sem mest saman,“ segir Jóhann.