Salurinn iðar af lífi á Kópavogsdögum

Barnatónleikar undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur
Barnatónleikar undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur

Salurinn, tónlistarhús Kópavogs, hefur iðað af lífi síðustu daga en tugir barna hafa þar sungið á barnatónleikum undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur. Hafa þau m.a. sungið Aravísur og fleiri góð lög eftir heiðurslistamann bæjarins Ingibjörgu Þorbergs. Tónleikarnir eru haldnir í tilefni Kópavogsdaga, menningarhátíðar bæjarins, sem nú fara fram. Þeim lýkur á laugardag.

Dagskráin hefur verið fjölbreytt. Listamenn í Kópavogi eru m.a. með myndlistarsýningu í Hamraborg 3 og eldri borgarar hafa sýnt handverk sín í félagsmiðstöðvum sínum Gullsmára, Gjábakka og Boðanum.
 
Yfir þúsund leik- og grunnskólabörn hafa kynnst hljóðfærasmíð í Tónlistarsafni Íslands og á föstudag verður haldin félagsmiðstöðvahátíð unglinga í Kópavogi. Þann dag fer einnig fram boccia-keppni bæjarstjórnar Kópavogs og bæjarstjórnar Garðabæjar.
 
Karlakór Kópavogs ætlar svo á síðasta degi hátíðinnar, laugardaginn 11. maí að fara í sparafötin og syngja í Art11 í Auðbrekku 4 og á fleiri góðum stöðum víða um bæ.
 
Nánari upplýsingar eru á kopavogsdagar.is