Samgönguviku ýtt úr vör

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Árni Davíðsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Árni Davíðsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri ýtti samgönguvikunni úr vör um helgina en markmiðið með henni er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota vistvænni samgöngumáta s.s. almenningssamgöngur, hjól eða tvo jafnfljóta. Ýmsir viðburðir verða tileinkaðir vikunni í Kópavogi og á höfuðborgarsvæðinu

Samgönguvikan hér er hluti af hinni evrópsku samgönguviku sem haldin hefur verið árlega í fjölmörgum borgum og bæjum víða um Evrópu. Kópavogsbær hefur tekið þátt í samgönguvikunni frá árinu 2007 með ýmsum viðburðum og uppákomum. Höfuðmarkmiðið er að draga úr mengun og hávaða.

Í Kópavogi hefur margt verið gert til að hvetja til umhverfisvænni samgöngumáta og er skemmst að minnast hjólreiðaáætlunar sem bæjaryfirvöld hafa samþykkt að vinna eftir. Hefur bærinn þar með skipað sér í fremstu röð þeirra sveitarfélaga sem vinna skipulega að bættum samgöngum fyrir hjólreiðamenn.

Einnig má geta þess að vinna er hafin við endurbætur á göngu- og hjólreiðastíg meðfram Hafnarfjarðarveginum. Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdum við stíginn frá Salnum og niður að undirgöngum á Kópavogstúninu verði lokið innan tíðar.

Í tilefni þess að samgönguvikan var að hefjast fór fram hjólreiðadagur fjölskyldunnar á sunnudag og kom hjólalest úr nágrannasveitarfélögunum til Kópavogs um hádegi á sunnudag. Bæjarstjórinn og aðrir Kópavogsbúar slógust þar í för og var haldið sem leið ná niður á Árbæjarsafn.

Dagskrá samgönguvikunnar má finna á viðburðadagatali bæjarsins sem er neðst á forsíðu vefjar Kópavogsbæjar. Með því að færa bendilinn yfir dagana og smella á þá má sjá viðburði hvers dags.