Samningur um Íþróttamiðstöð GKG

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Guðmundur Oddsson, formaður GKG og Gunnar Einarsson, bæj…
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Guðmundur Oddsson, formaður GKG og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar við undirritun samnings vegna Íþróttamiðstöðvar GKG.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Guðmundur Oddsson formaður GKG og Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar undirrituðu samning um byggingu Íþróttamiðstöðvar GKG í dag. Undirritunin fór fram í bæjarstjórnarsal Kópavogs.  Framkvæmdir við Íþróttamiðstöðina hefjast í febrúar og eru áætluð verklok í mars 2016. 

Félagar GKG, sem stendur fyrir Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar, eru um 2000 og er mikil áhersla á barna og unglingastarf í klúbbnum sem er annar stærsti golfklúbbur landsins.

 „Við skrifuðum undir viljayfirlýsingu í mars í fyrra og ánægjulegt er að nú tæpu ári síðar hafi samningur verið undirritaður sem gerir GKG kleyft að hefja framkvæmdir við íþróttamiðstöðina sem mun vafalítið efla golfíþróttina. Áhersla klúbbsins á barna- og unglingastarf er mjög jákvæð og eflaust mun aðstaðan í nýju húsi verða enn betur til þess fallin fjölga iðkendum á öllum aldri,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

 GKG er annar stærsti golfklúbbur landssins . Í klúbbnum eru nú um 2.000 félagar, 338 af þeim eru börn og unglingar undir 15 ára aldri. Að auki eru 67 einstaklingar 16 til 18 ára og um 470 krakkar fara í gegnum golfleikjanámskeið GKG. Það eru því tæplega 900 börn og unglingar sem nýta sér þjónustu GKG á hverju ári.

 Að lokinni þarfagreiningu fyrir GKG varð niðurstaðan sú að betur færi á að sameina innanhúsæfingaraðstöðu og félagsaðstöðu og reisa íþróttamiðstöð í stað hefðbundins klúbbhúss. Búið er að teikna drög að Íþróttamiðstöðinni og er það Helgi Már Halldórsson sem unnið hefur þá vinnu.

„Þörf GKG fyrir nýtt húsnæði fyrir æfingar- og félagsaðstöðu er brýn og því ánægjulegt að nú hafi verið gengið frá samningum og að við getum hafist handa. Íþróttamiðstöðin mun gera okkur kleyft að efla starfið okkar og fjölga félögum í GKG," segir Guðmundur Oddsson, formaður GKG.

 Samkvæmt áætlun mun Íþróttamiðstöðin kosta 660 milljónir og leggur Kópavogur til þriðjung upphæðarinnar, Garðarbær þriðjung og GKG þriðjung. Svæði GKG er í landi Kópavogs og Garðabæjar.