Samstarf við Leikfélag Kópavogs eflt

Á myndinni eru frá vinstri: Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála Kópavogsbæjar, Anna Marg…
Á myndinni eru frá vinstri: Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála Kópavogsbæjar, Anna Margrét Pálsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson og Karen Elísabet Halldórsdóttir formaður lista- og menningarráðs Kópavogs.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Anna Margrét Pálsdóttir formaður Leikfélags Kópavogs undirrituðu þriggja ára rekstrar- og samstarfssamning fyrir Leikfélag Kópavogs í dag þriðjudaginn 31. október.

„Leikfélag Kópavogs er rótgróin menningarstofnun í Kópavogi og mikið af landsþekktu leikhúsfólki hefur hafið störf sín í leikfélaginu. Í nýjum samningi er gert ráð fyrir að efla samstarf leikfélagsins við Menningarhús Kópavogs sem verður örugglega báðum til hagsbóta,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Með samningnum skuldbindur Leikfélagið sig til að standa fyrir opnum leiklistarnámskeiðum fyrir fullorðna og unglinga, uppsetningu á leiksýningum með börnum eða unglingum í bænum auk þess sem lögð verður áhersla á náið samstarf við menningarstofnanir og menningarviðburði á vegum bæjarins.

Leikfélagið fagnaði 60 ára afmæli fyrr á þessu ári en saga félagsins er rakin aftur til ársins 1957. Starfsemi Leikfélagsins fer núna fram í Funalind 2.

Kópavogsbær rekur fimm menningarstofnanir; Salinn, Gerðarsafn, Bókasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þá styrkir Kópavogsbær margvíslega menningarstarfsemi.

Vefsíða Leikfélags Kópavogs