Sífellt fleiri fara á bókasafnið

Salurinn í Kópavogi til vinstri og bókasafn Kópavogs til hægri
Salurinn í Kópavogi til vinstri og bókasafn Kópavogs til hægri

Sífellt fleiri sækja heim Bókasafn Kópavogs, bæði aðalsafnið sem er við Hamraborg 6a og Lindasafnið. Aukningin var um 7% milli áranna 2011 og 2012. Útlán hafa hins vegar á sama tíma dregist saman. Hrafn Andrés Harðarson bæjarbókavörður segir marga koma á safnið til að kíkja í bækur, fletta blöðum og tímaritum eða taka þátt í ýmsum viðburðum fyrir börn og ungmenni.

Bókasafnið er því farið að þjóna fjölbreyttara hlutverki en oft áður.

Teljarar eru á aðalsafninu við Hamraborg og í Lindasafni. Samkvæmt þeim sóttu 145.647 gestir aðalsafnið á árinu 2012 samanborið við 128.413 á árinu á undan. Yfir tólf þúsund gestir sóttu Lindasafn á síðasta ári, en teljarinn bilaði um mitt ár og því eru aðsóknartölur ekki kórréttar. Alls 19.635 sóttu safnið á árinu 2011.

Hrafn Andrés segir að margir séu blankir á þessum tímum og vilji spara við sig útgjöld. „Þá er bókasafnið góður kostur," segir hann. „Hingað koma fjölskyldur í hópum að fá lánaðar bækur, tímarit og mynddiska, auk þess að eiga hér notalega samverustundir og gramsa, spjalla og „tsjilla“. Hópum fjölgar vegna dagskrár í tengslum við t.d. Ormadaga, Jólaköttinn og fleira. Sögustundirnar eru alltaf vinsælar og svo mætti lengi telja.“

Útlánatölur fyrir árið 2012 liggja ekki fyrir en ljóst er þó eins og áður sagði að útlán hafa dregist saman.