Skapandi sumarstörf í Kópavogi

Katrín og Anna Tara Andrésdætur úr hljómsveitinni Hljómsveitt taka lagið í Sundlaug Kópavogs. Ljósm…
Katrín og Anna Tara Andrésdætur úr hljómsveitinni Hljómsveitt taka lagið í Sundlaug Kópavogs. Ljósmyndari: Íris Björk Gunnarsdóttir

Nú eru Skapandi Sumarstörf komin á fleygiferð. Þar gefst ungu skapandi fólki tækifæri til þess að vinna við listsköpun í sumar. Nú þegar hafa verið haldnir nokkrir viðburðir um bæinn og má þar m.a. nefna tónleika í Sundlaug Kópavogs, hljóðskúlptúr í undirgöngunum undir Digranesveg og þematengdar listasýningar í Molanum.

Hóparnir tóku einnig þátt í því að lífga upp á bæinn á 17. júní með miklum glæsibrag.  Margir hópar nýta sér internetið óspart sem miðil til að koma sér á framfæri. Þar birtast þættir um ýmislegt sem tengist Kópavogsbæ, svo sem menningarþættir,  þættir um knattspyrnufólk, tískuþættir, gamanþættir og svo mætti lengi telja.

Hægt er að fylgjast með listafólkinu á Facebook undir síðunni Skapandi Sumarstörf í Kópavogi 2013. Þar er einnig hægt að finna tengla inn á þeirra eigin síður. Bæjarbúar eru sömuleiðis hvattir til þess að kíkja í kringum sig eða ganga á hljóðið því þar gæti leynst ljóð, smásaga eða hljóðskúlptúr í næsta nágrenni

Þetta er sjötta starfsár Skapandi sumarstarfa. Í sumar taka 25 ungmenni þátt í starfinu á aldrinum 18-25 ára. Þauhófu störf þann 3. júní síðastliðinn og eru starfandi til 26. júlí.