Skólahljómsveit Kópavogs fagnar 45 ára afmæli

Skólahljómsveit Kópavogs fagnar 45 ára starfsafmæli sínu um þessar mundir.
Skólahljómsveit Kópavogs fagnar 45 ára starfsafmæli sínu um þessar mundir.

Skólahljómsveit Kópavogs heldur upp á 45 ára starfsafmæli sitt með veglegum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 4. mars kl. 17:00. Hljómsveitin sem var stofnuð haustið 1966 miðar afmæli sitt ávallt við fyrstu tónleikana sem haldnir voru við Kársnesskóla 22. febrúar 1967.

Þá komu fram um 50 börn og unglingar en nú 45 árum síðar eru alls um 150 hljóðfæraleikarar á aldrinum 9 – 19 ára sem stíga á svið í Hörpu í tilefni tímamótanna.

Hópnum er skipt í þrjár hljómsveitir A, B og C eftir aldri og getu með að jafnaði 50 manns í hverjum hóp.

Efnisskrá tónleikanna er mjög fjölbreytt, tónlist af ýmsum toga, bæði gömul og ný verður á boðstólum. Af efnisskránni má nefna mars úr Tannhäuser eftir Wagner, lög eftir Sigfús Halldórsson og Mugison, J.S.Bach og Holst, Strauss-valsa og ýmis tónverk samin sérstaklega fyrir blásarasveitir. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Skólahljómsveit Kópavogs er ein af virkustu skólahljómsveitum landsins. Metnaður er lagður í að flytja vandaða efniskrá á hverjum tónleikum og hafa æfingar fyrir afmælistónleikana staðið yfir í allan vetur. SK hefur einnig gefið út geisladiska og hljómplötur og fengið íslensk tónskáld til að semja tónverk fyrir hljómsveitina.

Á síðasta ári fékk B sveit sveitarinnar viðurkenningu á Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna fyrir framúrskarandi samleiksatriði í grunnnámsflokki. C sveit SK hefur einnig hlotnast sá heiður að vera beðin um að taka þátt í nútímatónlistarhátíðinni Tectonics í Hörpu þann 3. mars auk þess sem félagar úr sveitinni taka þátt í uppfærslu Íslensku óperunnar á La Bohéme í mars og apríl, einnig í Hörpu.

Stjórnandi Skólahljómsveitar Kópavogs er Össur Geirsson, en hann hóf sjálfur nám í skólahljómsveitinni árið 1972 og hefur verið viðloðandi hana síðan. Hann tók við stjórnartaumunum árið 1993 af Birni Guðjónssyni, sem þá hafði stjórnað hljómsveitinni frá upphafi.

Miðaverð á tónleikana er 1.500 krónur, en 1.000 krónur börn 15 ára og yngri og eldri borgara.