Skólahljómsveit Kópavogs í nýtt húsnæði

Sigrún Bjarnadóttir, Stefán L. Stefánsson, Ármann Kr. Ólafsson, Össur Geirsson og Margrét Birna Sig…
Sigrún Bjarnadóttir, Stefán L. Stefánsson, Ármann Kr. Ólafsson, Össur Geirsson og Margrét Birna Sigurbjörnsdóttir virða fyrir sér teikningar af nýrri byggingu Skólahljómsveitar Kópavogs.

Nýtt húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs er í byggingu en stefnt er að því að taka það í notkun í janúar 2020.

Byggingin, sem er viðbygging við Álfhólsskóla Digranesi, rúmar sjö kennslustofur og skrifstofur auk þess sem æfingaaðstaða hljómsveitarinnar mun taka stakkaskiptum með stækkun á hátíðarsal Álfhólsskóla. Eldhús skólans verður stækkað í sömu framkvæmd og lóð skólans endurnýjuð.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og Össur Geirsson skólastjóri Skólahljómsveitarinnar skoðuðu framkvæmdirnar á dögunum ásamt Margréti Birnu Sigurbjörnsdóttur aðstoðarskólastjóra hljómsveitarinnar, Sigrúnu Bjarnadóttur skólastjóra Álfhólsskóla og Stefáni L. Stefánssyni deildarstjóra framkvæmdadeildar Kópavogs.

„Nýtt húsnæði er langþráð bylting í aðstöðu hljómsveitarinnar sem hefur verið starfrækt frá árinu 1966,“ segir Össur Geirsson skólastjóri. Skólahljómsveit Kópavogs var stofnuð árið 1966.

Össur notaði tækifærið í heimsókninni og gaf bæjarstjóra tíma í trommuleik með því skilyrði að hann spilaði á opnunarhátíðinni þegar byggingin verður vígð. „Ég tek áskoruninni og mæti spenntur í trommutíma á nýju ári. “ segir Ármann Kr. Ólafsson. „Það verða sannarlega ánægjuleg tímamót þegar húsnæðið verður vígt.“

Framkvæmdir hófust í sumar við húsnæðið og er áætlað að húsið verði fullbyggt í desember 2019. Flotgólf ehf. sér um framkvæmdina.