Skólahljómsveitin undirbýr vortónleika

Skólahljómsveit Kópavogs
Skólahljómsveit Kópavogs
Krakkarnir í Skólahljómsveit Kópavogs keppast nú við að undirbúa vortónleikana sína sem verða sunnudaginn 9. mars,  kl. 14, í Háskólabíói. Heilu helgarnar eru teknar undir æfingar og þá er farið út úr bænum til að hafa allan hópinn saman og styrkja samheldnina.

Um síðustu helgi fór C sveitin í æfingabúðir í Hlíðardalsskóla og helgina þar áður fór B sveitin á sama stað.

Í æfingabúðunum er æft nánast linnulaust frá föstudagskvöldi fram á miðjan sunnudag. Þar brýst fram mikil spilagleði undir styrkri stjórn hljómsveitarstjóranna og framfarirnar eru slíkar að engu líkara er en að það sé ný og betri hljómsveit sem kemur heim eftir helgina.

 Á milli æfinga er náttúrulega sprellað líka og fjörið er engu líkt.

Kópavogsbúar ættu að skella sér á tónleika Skólahljómsveitarinnar og sjá hvað þessir frábæru krakkar hafa verið að vinna að í vetur.