Skólar í Kópavogi hljóta viðurkenningu

Verkefnið kynnt
Verkefnið kynnt

Vatnsendaskóli og leikskólinn Arnarsmári hlutu nýverið viðurkenningu fyrir Comeniusar-verkefni sín á uppskeruhátíð Evrópskra samstarfsáætlana. Comenius er nafn á verkefni sem tilheyrir menntaáætlun Evrópusambandsins. Ísland hefur aðgang að því í gegnum EES-samninginn. Comenius styrkir evrópskt samstarfsverkefni skóla, nemendaskipti, endurmenntun kennara, starfsþjálfun kennaranema og námsefnisgerð. Yfirmaður menntamála hjá ESB afhenti viðurkenningarnar.

Landskrifstofa menntaáætlunar ESB á Íslandi sér um viðurkenningarnar. Utanaðkomandi sérfræðingar meta öll verkefnin en mælikvarðarnir snúast um frumlegheit, virkni nemenda, verkefnastjórn og niðurstöður. 

Rúmlega 30 ný Comeniusar skólaverkefni eru styrkt á hverju ári. 

Vatnsendaskóli vann að sínu verkefni í samstarfi við skóla í fimm öðrum löndum. Þar var lögð áhersla á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir okkar nánast umhverfi.  Fyrst unnu nemendur að því að þroska með sér skilning á því hvað væri að vera þátttakandi í samfélagi. Virðingarhugtakið var síðan víkkað út og sjónum beint að mikilvægi þess að bera virðingu fyrir náttúrunni og umheiminum.

Leikskólinn Arnarsmári vann einnig að sínu verkefni í samtarfi við skóla í fimm öðrum löndum. Þar var lögð áhersla á að börn yrðu meðvituð um mikilvægi heilbrigðs lífernis. Skipst var á heilsukössum sem  höfðu að geyma alls kyns dæmi og hugmyndir til að ýta undir heilbrigðan lífssíl. 
 
Kópavogsbær óskar skólunum tveimur til hamingju með árangurinn.