Söfnuðu ríflega 300.000 í góðgerðaviku

Fulltrúar frá hjálparsamtökum og fulltrúar nemenda Vatnsendaskóla ásamt Guðrúnu Soffíu Jónasdóttur …
Fulltrúar frá hjálparsamtökum og fulltrúar nemenda Vatnsendaskóla ásamt Guðrúnu Soffíu Jónasdóttur skólastjóra.

Nemendur í Vatnsendaskóla afhentu nýverið fulltrúum Rauða krossins, Samhjálpar, Unicef og ABC-barnahjálp afrakstur söfnunar góðgerðaviku skólans, alls ríflega 300.000 krónur. Í góðgerðavikunni var hefðbundin kennsla brotin upp og nemendur fræddust á fjölbreyttan hátt um störf þessara hjálparsamtaka. Þeir fóru meðal annars í vettvangsheimsóknir í nytjamarkaðinn og Samhjálp og elsta stigið kynnti sér stöðu flóttamanna. 

Nemendur allra stiga undirbjuggu svo markaðsdag sem haldinn var í lok vikunnar, sem fram fór 16.-20. mars. Á markaðsdeginum var til sölu alls kyns varningur sem nemendur höfðu útbúið sjálfir en einnig höfðu nemendur safnað dóti í glös sem voru vinningar í lukkuhjóli.

Afrakstur sölunnar var svo afhentur á sal skólans 7. apríl síðastliðinn. Unglingastigið safnaði 105.500 krónum fyrir Unicef, miðstigið safnaði tæplega 83.000 krónum fyrir Rauða Krossinn og 50.500 krónum fyrir Samhjálp og yngsta stigið safnaði rúmlega 65.000 krónum fyrir ABC-Barnahjálp, alls 304.000 krónur.