Söfnun og meðhöndlun fræja

Trjásafnið er í Meltungu 6, austast í Fossvogsdal.
Trjásafnið er í Meltungu 6, austast í Fossvogsdal.

Nú er sumarið að baki og haustið komið með allri sinni litadýrð. Haustið er líka tíminn til að safna fræjum. Fræbanki Garðyrkjufélags Íslands í samstarfi við Kópavogsbæ efnir til fræðslu um söfnun og meðhöndlun fræja.

Fræðslan fer fram í trjásafninu í Meltungu, austast í Fossvogsdal, þriðjudaginn 8. október nk., hefst klukkan 17:30 og stendur til kl. 19:00.
Safnast verður saman neðst í Kjarrhólma þar sem leiðbeinendur taka á móti þátttakendum. Sérfræðingar fræbankans ætla með þátttakendum að huga að fræjum og þroska þeirra í gönguferð um safnið í Meltungu. Fræjum verður safnað og kennd meðhöndlun þeirra fyrir geymslu, til að mynda þurrkun og pökkun. Gefin verða góð og hagnýt ráð um sáningar og margt fleira.
Leiðbeinendur verða Barbara Stanzeit, Auður Jónsdóttir og Kristinn H. Þorsteinsson frá Garðyrkjufélagi Íslands en stjórnandi göngunnar verður Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogs.

Takið með ykkur klippur, blýant og blað eða merkimiða og slatta af pokum til að setja fræin í.

Fræbanki Garðyrkjufélagsins gefur árlega út frælista og í góðu árferði má þar finna fræ af hátt í 1.000 tegundum plantna. Fræbankanum berst mikið magn fræja frá félagsmönnum Garðyrkjufélagsins sem er helsta uppistaða fræbankans. Sérstök frænefnd vinnur úr fræsendingum, flokkar þau og pakkar og með hækkandi sól er frælistinn gefinn út. Þar geta félagsmenn pantað sér fræ ýmissa trjá og runna, fjölærra plantna, sumarblóma og matjurta.

Fræðslugangan en eitt af mörgum samstarfsverkefnum Kópavogsbæjar og Garðyrkjufélags Íslands. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Trjásafn kort