"Spot on Kársnes"

Spot On Kársnes bar sigur úr býtum í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni um Kársnes í Kópavogi.
Spot On Kársnes bar sigur úr býtum í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni um Kársnes í Kópavogi.
Spot on Kársnes

er yfirskrift verðlaunatillögunnar í alþjóðlegri hugmyndasamkeppninni um Kársnes í Kópavogi, sem hleypt var af stokkunum í október síðastliðnum en úrslit voru kynnt í Helsinki í dag, 16. júní. Að verðlaunatillögunni standa Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt, Anders Egebjerg Terp landslagsarkitekt og Gunnlaugur Johnson, arkitekt. 

Verðlaunafé fyrir vinningstillöguna eru 250.000 norskar krónur, andvirði tæpra 3,8 milljóna íslenskra króna. Höfundum tillögunnar gefst einnig kostur á að keppa til verðlauna á þriðja þrepi keppninnar á vegum Nordic Innovation (Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar) en verðlaunafé í lok þeirrar keppni er um 7 milljónir íslenskra króna.

Í tillögunni er gert ráð fyrir sundlaug á miðri brú yfir Fossvoginn en þannig er brúnni gefið tvíþætt hlutverk sem spennandi viðkomustaður borgarbúa og ný tenging milli Kópavogs og Reykjavíkur. Einnig er gert ráð fyrir brú yfir á Bessastaðanes fyrir gangandi vegfarendur, hjólreiðamenn og almenningssamgöngur. Þannig tekur vinningstillagan einstaklega vel á megináskorun keppninnar sem var að: „Finna leiðir til þess að bæta tengingar við Kársnesið og höfuðborgarsvæðið þannig að Kársnesið verði dýnamískt og sjálfbært borgarsvæði fyrir fólk, fyrirtæki og umhverfið.“ Alls bárust 19 tillögur í keppnina um Kársnesið og komust fjórar þeirra áfram í aðra umferð; Sólborg, Spot on Kársnes, Evolve Kársnes og Harbouring life.

Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna Spot on Kársnes segir að hún sé hvort tveggja djörf og dýnamísk, vel sé brugðist við áskoruninni hvað varðar tengingar innan höfuðborgarsvæðisins, aðgengi að Kársnesi og lífsgæði innan hins nýja hverfis.

"Það var mikil áskorun fyrir okkur í Kópavogi að taka þátt í samkeppi af þesssari stærðargráðu – fyrir samfélag sem telur aðeins 35 þúsund íbúa. Vinningtillagan Spot on Kársnes gefur okkur von um nýja sýn á framtíð svæðisins sem mun ýta undir það að Kársnesið verði í framtíðinni sjálfbært, lifandi hverfi hvort tveggja fyrir íbúa og atvinnulíf. Tillagan er sannarlega djörf og umfangsmikil og settar eru fram hugmyndir sem skipulagsyfirvöld í Kópavogi hafa kannski látið sér detta í hug en skort áræði til að setja opinberlega fram. Spot on Kársnes er ekki aðeins samansafn nýrra og spennandi hugmynda heldur felast í tillögunni tækifæri sem skipulagsyfirvöld í Kópavogi munu nú taka til nánari skoðunar og úrvinnslu. Vinningstillagan í Kársnessamkeppninni býður upp á sterka og mikilvæga framtíðarsýn fyrir þróun Kársness,“ segir Birgir H. Sigurðsson, skipulagsstjóri Kópavogsbæjar.

Samkeppnin var hluti af alþjóðlegu keppninni Nordic Built Cities Challenge en Kársnes í Kópavogi var eitt af sex svæðum á Norðurlöndum sem valin voru til þátttöku ásamt svæðum í Malmö, Ósló, Kaupmannahöfn, Runavík í Færeyjum og í Espoo í Finnlandi. Meginmarkmið keppninnar var að efla nýsköpun og samkeppnishæfni Norðurlandanna á sviði sjálfbærni í byggðu umhverfi.  Skipuð var dómnefnd í hverju landi. Íslensku dómnefndina skipuðu Guðný Björk Eydal, Hrafnkell Proppé, Karl Benediktsson, Þór Sigfússon,  formaður nefndarinnar, og Þóra Kjarval, sem jafnframt var verkefnisstjóri.