Stærsti listamannahópur frá upphafi

Lokahátíð Skapandi sumarstarfa
Lokahátíð Skapandi sumarstarfa

Lokahátíð var haldin í Molanum, höfuðstöðvum Skapandi Sumarstarfa, auk þess sem nokkur atriðanna teygðu sig yfir í tónlistarhúsið Salinn.

Dagskrá hátíðarinnar stóð á milli 17-20 og var húsið yfirfullt af áhugasömum listunnendum allan tímann. Atriðunum var dreift á milli hæða svo allir kæmust fyrir enda margir forvitnir um starfið. Listin teygði sig meira að segja alla leið niður í bílakjallara hússins þar sem hægt var að skoða myndlistarsýningu úr endurunnu efni og gægjast inn í forvitnilegt teppavirki þar sem stuttmynd var frumsýnd.

Lokahátíðin í ár var sú stærsta frá upphafi Skapandi Sumarstarfa enda gafst töluvert fleiri ungmennum á aldrinum 18-25 tækifæri til að vinna að listsköpun sinni vegna átaksverkefnis Kópavogsbæjar. Sýnd voru 20 verkefni á hátíðinni en að baki þeim stóðu 36 listamenn. Listaverkin voru jafn ólík og þau voru mörg en meðal þeirra voru málverk byggð á smásögum Svövu Jakobsdóttur, farandgallerý í bleikum ísskáp, útvarpsleikrit, tónlistargjörningar og stuttmynd um eltingaleik í gegnum Kópavog.

Gestir og gangandi voru ánægðir með viðburðinn enda tryggði fjöldi og fjölbreytileiki listamanna að allir gætu fundið eitthvað að þeirra skapi. Það er deginum ljósara að í Kópavogi leynist aragrúi efnilegs listafólks. Skapandi Sumarstörf í Kópavogi bjóða upp á einstakt tækifæri fyrir ungt fólk til þess að rækta hæfileika sína og læra af hvoru öðru.

Dáðst af listaverkum skapandi sumarstarfa