Viðurkenningar jafnréttis- og mannréttindaráðs 2016

Birte Harksen ásamt leikskólastjóranum Sigrúnu Huldu Jónsdóttur, Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra …
Birte Harksen ásamt leikskólastjóranum Sigrúnu Huldu Jónsdóttur, Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra og Ragnheiði Bóasdóttur formanni jafnréttis- og mannréttindaráðs.

Birte Harksen fagstjóri tónlistar á heilsuleikskólanum Urðarhóli og íþróttafélagið Stál-úlfur fá viðurkenningu jafnréttis- og mannréttindaráðs Kópavogsbæjar 2016. Ráðið veitir árlega viðurkenningu til aðila sem ráðið telur hafa staðið sig vel á sviði jafnréttis og mannréttinda.

Birte Harksen flutti til Íslands árið 2000 frá heimalandi sínu Danmörku. Síðustu ár hefur hún sérhæft sig í tónlistarstarfi og starfar nú sem fagstjóri tónlistar á Heilsuleikskólanum Urðarhóli.  Birte leggur mikinn metnað í að kynna menningarheim annarra þjóða í gegnum tónlist þeirra og reynir hún að  tengja lagaval við móðurland þeirra barna sem eru á leikskólanum hverju sinni. Í gegnum vefsíðuna hennar www.bornogtonlist.net  fá svo aðrir leikskólar að njóta og læra.

Sérstaka athygli vakti um heim allan þegar Birte kenndi leikskólabörnum á Urðarhól  Dropalagið á arabísku af því tilefni að drengur frá Sýrlandi byrjaði í leikskólanum.  Börnin lærðu lagið á rúmri viku og sungu fyrir drenginn þegar hann mætti í fyrsta skiptið honum til mikillar undrunar.   Með  orðum Birte sjálfrar: ,,Ég vona að þegar þessi börn hitti arabískumælandi fólk í framtíðinni verði það fyrsta sem þau hugsa: "Hey, ég kann arabískt lag!" - og að þetta hjálpi þeim að yfirvinna fordóma og mynda jákvæð og vinsamleg samskipti.“   

Íþróttafélagið Stál-úlfur var stofnað í byrjun árs 2010 af litháískum íþróttamönnum búsettum hér á landi.  Hugmyndin og tilgangur félagsins er meðal annars að búa til vettvang fyrir íþróttaáhugamenn af erlendum uppruna; hvetja til heilbrigðra lífshátta, efla sjálfsmynd og aðstoða innflytjendur að aðlagast íslensku samfélagi.

Félagið teflir fram bæði fótbolta- og körfuboltaliði og hefur náð góðum árangri í sínum deildum.  Draumur félagsins er að taka upp barna- og unglingastarf og auðvitað að tefla fram liði í kvennadeild.  Félagið er í samstarfi við Retor fræðslu sem býður félagsmönnum upp á ókeypis tungumálanámskeið.

Jafnréttis- og mannréttindaráð vill með viðurkenningu sinni þakka viðtakendum fyrir sitt framlag í þágu fjölmenningar og aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi.