Stofnun Wilhelms Beckmann komið á fót

Á myndinni eru: Bragi Björnsson lögfræðingur, Helga Reinhardsdóttir, Jón Þór Þórhallsson, Hrafn A.H…
Á myndinni eru: Bragi Björnsson lögfræðingur, Helga Reinhardsdóttir, Jón Þór Þórhallsson, Hrafn A.Harðarson, Hrefna Beckmann og Karen E. Halldórsdóttir.

Stofnun Wilhelms Beckmann listamanns hefur nú verið komið á fót af hálfu Kópavogsbæjar og afkomenda listamannsins. Hlutverk stofnunarinnar er að varðveita sögu, listsköpun og listaverk hans og kynna þau og sýna almenningi á Íslandi og erlendis. Stofnsamningur var undirritaður nýverið af þeim Karen E. Halldórsdóttur, formanni lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar og Hrefnu og Einari Beckmann, börnum Wilhelms.

Hrefna og eiginmaður hennar Jón Þór Þórhallsson leggja stofnuninni til  stofnfé að upphæð rúmum fimm milljónum króna en jafnframt leggja þau stofnuninni til verk eftir Wilhelm Beckmann. Kópavogsbær leggur einnig til stofnunarinnar öll verk listamannsins í eigu bæjarins, þar með talin verk sem gefin voru af erfingjum til Bókasafns Kópavogs árið 2010.

Þriggja manna stjórn verður yfir stofnuninni, þar sem einn verður tilnefndur af ættingjum Wilhelms, einn af Kópavogsbæ og einn af  mennta- og menningarmálaráðuneyti. Stjórn hefur enn ekki verið skipuð en henni er ætlað að setja sér starfsreglur á grundvelli stofnsamningsins. Henni er heimilt að ráða forstöðumann.

Wilhelm Beckmann var fjölhæfur listamaður og skar út í tré, hjó í stein, málaði myndir og gerði skartgripi. Hann fæddist í Hamborg í Þýskalandi árið 1909 þar sem hann ólst upp og lærði útskurð og  myndhöggvaralist. Hann fluttist til Íslands árið 1935 og kvæntist Valdísi Einarsdóttur fimm árum síðar. Þeim varð tveggja barna auðið og bjuggu þau lengi vel í Kópavogi. Hann gaf Kópavogskirkju fyrstu altaristöflu kirkjunnar árið 1954.  

Wilhelm lést eftir löng veikindi árið 1965.