Stofutónleikar í Kópavogi 8. og 9. maí

Stofutónleikar Björns Thoroddsen í Kópavogi 2014 sem voru hluti af Jazzhátíð Kópavogs.
Stofutónleikar Björns Thoroddsen í Kópavogi 2014 sem voru hluti af Jazzhátíð Kópavogs.

Kópavogsbúum býðst að fá tónlistarfólk heim í stofu föstudaginn 8. og laugardaginn 9. maí. Stofutónleikarnir eru hluti af hátíðarhöldum í tilefni 60 ára afmælis bæjarins en lista- og menningarráð Kópavogs býður bæjarbúum upp á stutta og stórskemmtilega tónleika afmælishelgina. Þeir listamenn sem halda munu stofutónleika eru Björn Thoroddsen, Bee Bee (Brynhildur Oddsdóttir), Snorri Helga og KK,  Kristján Kristjánsson. Tónleikarnir eru húsráðanda að kostnaðarlausu en sækja þarf um að fá að halda tónleika.  

„Ég efndi til stofutónleika síðasta haust og það tókst afar vel til. Það myndast mikil nánd milli tónlistarmanna og tónleikagesta á tónleikum í heimahúsum sem skilar sér í frábærri upplifun. Þessir tónleikar eru fyrirtaks upphitun fyrir stórtónleika bæjarins í Kórnum 10. maí,“ segir Björn Thoroddsen skipuleggjandi tónleikanna. „Ég hvet fólk til að sækja um, ég spilaði í íbúðum og húsum af ýmsu tagi síðast, það er engin stofa of lítil eða of stór fyrir svona uppákomu,“ bætir Björn við.

Áætlaður spilatími á hverjum stað um 20 mínútur. Fyrstu tónleikarnir hefjast klukkan átta og verða síðan á heila og hálfa tímanum. Síðustu tónleikunum lýkur klukkan 22.30.

Þeir sem vilja bjóða gestum heim þurfa einungis að senda inn tónleikaósk fyrir 26. apríl. Í umsókninni þarf að tilgreina nafn, heimilisfang, símanúmer og hvort óskað er eftir tónleikum 8. eða 9. maí. Stjórnendur áskilja sér rétt á stýra því hvar, hver listamaður treður upp.

Ef fleiri umsóknir um stofutónleika berast en fjöldi tónleika þá verður valið úr umsóknum meðal annars með það í huga að dreifa þeim um bæinn.

Áhugasamir eru hvattir til að senda inn tónleikaósk á netfangið btmusicehf@gmail.com