Styrkir rekstur golfvallar GKG

Samningurinn undirritaður
Samningurinn undirritaður

Kópavogsbær styrkir rekstur á golfvellinum í Leirdal, samkvæmt nýjum samningi Kópavogsbæjar og Golfklúbbs Garðabæjar og Kópavogs. Samningurinn var undirritaður af Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra og Unu Maríu Óskarsdóttur, formanni íþróttaráðs,  og þeim Guðmundi Oddssyni og Agnari Má Jónssyni, fyrir hönd GKG. Í ár er gert ráð fyrir að framlag bæjarins verði sex milljónir króna. Því skal verja til umhirðu og umsjónar á golfvellinum.

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar hefur yfir að ráða tveimur glæsilegum golfvöllum. Annars vegar Mýrinni sem er 9 holu völlur  í Vetrarmýrinni í Garðabæ og hins vegar Leirdalsvelli sem er 18 holu völlur og nær frá Vetrarmýrinni í Garðabæ og upp í Leirdal í landi Kópavogs og aftur til baka.

Leirdalsvöllurinn var fullmótaður árið 2007 og er hann einn fjölbreyttasti, skemmtilegasti og glæsilegasti 18 holu völlur landsins.

Samningur Kópavogsbæjar og GKG gildir til 31. desember 2014 en eftir þann tíma framlengist hann sjálfkrafa til 31. desember ár hvert óski samningsaðilar ekki eftir endurskoðun eða uppsögn hans með þriggja mánaða fyrirvara.