Styrkir veittir úr lista- og menningarsjóði

Listamennirnir tóku glaðir við styrknum
Listamennirnir tóku glaðir við styrknum

Alls 22 listamenn og hópar fengu styrk úr lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar í dag fyrir samtals 5,3 milljónir króna. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Gerðarsafni. Hlutverk lista- og menningarsjóðs er að auðga menningarlífið í bænum og eru verkefnin sem styrkt voru af margvíslegum toga. Má nefna tónleikahald, barnamenningu, kórastarf, danssýningar og kvikmyndagerð.

Fjöldi umsókna berst lista- og menningarsjóði á ári hverju og er stærsta úthlutunin úr honum í upphafi árs en einnig eru veittir svokallaðir skyndistyrkir síðar á árinu.

Lista- og menningarráð fer með stjórn sjóðsins og metur umsóknir í samræmi við reglur hans. Tekjur sjóðsins eru 0,5% af 6,7% útsvarsstofni.

Í upphafi athafnarinnar í dag söng Karlakór Kópavogs nokkur lög en öflugt kórastarf er í bænum. Lista- og menningarráð hefur veitt kórunum rekstrarstyrki á ári hverju og hefur nú ákveðið að gera samning við kórana um slíka styrki til næstu þriggja ára.

Kórarnir eru auk karlakórsins, Kvennakór Kópavogs, Samkór Kópavogs og Söngvinir, kór aldraðra.

Á meðfylgjandi mynd eru listamennirnir auk fulltrúa lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar.